Kolbrún endurráðin til næstu fimm ára

Kolbrún Þ. Pálsdóttir hefur verið endurráðin forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands …
Kolbrún Þ. Pálsdóttir hefur verið endurráðin forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands til næstu fimm ára, eða til 1. júlí 2028. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Kolbrún Þ. Pálsdóttir mun halda áfram sem forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands en hún hefur verið endurráðin til næstu fimm ára, eða til 1. júlí 2028. 

Kolbrún hefur sinnt embættinu frá árinu 2019 en hún hefur starfað við kennslu og rannsóknir innan háskólans í hartnær tvo áratugi. Þá hefur hún margvíslega starfsreynslu af skóla- og frístundastarfi og gegndi m.a. viðamiklum stjórnunarstöðum hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar þar sem hún tók þátt í stefnumótun og uppbyggingu á frístundaheimilum fyrir 6 til 9 ára börn. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Háskóla Íslands.

Spennandi tímar framundan

Kolbrún lauk BA-prófi í heimspeki frá HÍ árið 1996, meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2001 og doktorsprófi á sviði menntunarfræða frá uppeldis- og menntunarfræðideild árið 2012. Hún var ráðin lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið árið 2013 og fékk framgang í starf dósents árið 2017.

„Það er mikill heiður að fá tækifæri til að leiða áfram Menntavísindasvið en þar starfa ég með frábæru og metnaðarfullu samstarfsfólki. Fram undan eru spennandi tímar og áframhaldandi uppbygging í samstarfi við fjölmarga hagaðila. Sviðið mun flytja í Sögu á aðalsvæði Háskólans á árinu 2024. Við ætlum okkur að skapa nýja Sögu og búa til kraftmikið menntasamfélag í því glæsilega húsi,“ er haft eftir Kolbrúnu í tilkynningu HÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert