Taldi að flytja ætti inn 6 kíló en ekki 100 kíló

Sakborningar fjórir földu allir andlit sitt er þeir mættu í …
Sakborningar fjórir földu allir andlit sitt er þeir mættu í héraðsdóm er aðalmeðferð hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir sakborningar í stóra kókaínmálinu segjast báðir ekki hafa vitað um raunverulegt magn fíkniefnanna sem átti að flytja inn.

Halda þeir því fram að aðild þeirra að málinu hafi verið veigalítil og þeir ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir í málinu, einungis fylgt fyrirmælum annarra. Þá gagnrýna þeir báðir rannsóknina á fíkniefnunum sem yfirvöld í Hollandi lögðu hald á.

13-17 milljónir á hvern einstakling

Skýrslutökur yfir sakborningunum fjórum; Páli Jónssyni, Daða Björnssyni, Jóhannesi Páli Durr og Birgi Halldórssyni, fóru fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 19. janúar. Fjöl­miðlum er óheim­ilt að greina frá skýrslu­tök­un­um fyrr en þeim er öll­um lokið í mál­inu. Þeim verður haldið áfram eftir tvær vikur, 9. febrúar. 

Því skal það tekið fram að þessi umfjöllun er alfarið unnin upp úr greinargerðum verjenda sakborninganna til héraðsdóms, sem mbl.is hefur undir höndum. 

Menn­irn­ir fjór­ir eru all­ir ákærðir fyr­ir skipu­lagða brot­a­starf­semi, til­raun til stór­fellds fíkni­efna­laga­brots og hafa haft um­tals­verðar óút­skýrðar tekj­ur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinn­ings af refsi­verðum brot­um. Eru upp­hæðirn­ar frá 13 og upp í 17 millj­ón­ir á hvern ein­stak­ling, sam­tals 63 millj­ón­ir.

Athygli vekur að í annarri greinargerðinni segir að samkvæmt réttarbeiðnum lögreglu um leit í gáminum, sem meintu fíkniefnin voru í, hafi verið um að ræða gám á vegum hóps manna sem grunaður er um að hafa á árinu 2020 flutt inn meira en 100 kíló af ólöglegum fíkniefnum til landsins. 

Allir sakborningarnir fjórir eiga lítinn sem engan brotaferil að baki.

Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu - samtals …
Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu - samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Stærsta kókaín­mál sem hef­ur komið upp hér á landi

Í ákæru héraðssaksóknara segir að upp­haf máls­ins megi rekja til þess er lög­regla fékk upp­lýs­ing­ar um það að hóp­ur manna væri að flytja inn mikið magn af kókaíni hingað til lands. Á rann­sókn­ar­tíma­bil­inu fylgd­ist lög­regla með ákærða og meðákærðu auk þess sem lög­regla beitti rann­sóknar­úr­ræðum með heim­ild dóm­stóla.

Í ákæru héraðssak­sókn­ara seg­ir að sak­born­ing­arn­ir ásamt óþekkt­um aðila hafi staðið sam­an að inn­flutn­ingi á 99,25 kíló­um (með 81%-90% styrk­leika) af kókaíni hingað til lands frá Bras­il­íu með viðkomu í Rotter­dam í Hollandi. 

Fíkni­efn­in voru fal­in í sjö trjá­drumb­um sem komið var fyr­ir í gámi en efn­in voru hollensk yfirvöld lögðu hald á efnin 30. júní árið 2022. Gervi­efn­um var síðan komið fyr­ir í trjá­drumb­un­um og kom gám­ur­inn hingað til lands aðfaranótt 25. júlí og var af­greidd­ur af tollsvæði þann 2. ág­úst. 

4. ág­úst voru trjá­drumbarn­ir síðan flutt­ir að Gjá­hellu í Hafnar­f­irði, þar sem hin ætluðu fíkni­efni voru fjar­lægð úr trjá­drumb­un­um af Daða. 

Hann pakkaði þeim þar niður og flutti til ótil­greinds aðila til að hægt yrði að koma efn­un­um í sölu og dreif­ingu. 

Lög­regla lagði aftur á móti hald á hluta af ætluðum fíkni­efn­un­um í bif­reið Daða sem var lagt við Vefara­stræti í Mos­fells­bæ. Menn­irn­ir fjór­ir voru hand­tekn­ir sama kvöld. 

Greinargerðirnar sem mbl.is hefur undir höndum eru frá verjendum Páls og Daða og eru ritaðar í desember.

Játar að hafa tekið þátt í innflutningi

Páll er 67 ára og eigandi fyrirtækisins Hús og Harðviðir, sem flutti inn timbrið sem kókaínið var falið í. Hann krefst sýknu að hluta.

Í ákærunni segir að Páll hafi um nokkurt skeið fram til 4. ágúst í fyrra, er hann var handtekinn, tekið við, geymt, umbreytt og aflað sér ávinnings af refsiverðum brotum rúmlega 16 milljónum króna sem hann notaði meðal annars til eigin framfærslu og til að greiða fyrir innflutning fíkniefnanna. 

Páll Jónsson.
Páll Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í greinargerðinni segir að Páll krefjist aðallega sýknu er lýtur að skipulagðri brotastarfsemi og að hafa ætlað efnin til sölu og dreifingar. 

Páll játar þó að hafa átt þátt í tilraun til innflutnings „með þeim fyrirvara að magn og styrkleiki efnanna sem lagt var hald á sé minna en greinir í ákæru“. Hann neitar að hafa haft vitneskju um magn og styrkleika efnanna. Páll segist hafa haldið að um sjö kíló af kókaíni væri að ræða, ekki tæplega 100 kíló. 

Í greinargerðinni segir að Páll hafi aldrei tekið þátt í athæfinu hefði hann vitað um rétt magn. Viðbrögð hans í skýrslutöku lögreglu „bera þess þá vel merki að hann telji hafa verið farið afar illa með sig“.

Þá neitar Páll að hafa átt að eiga nokkurn þátt í sölu eða dreifingu efnanna hérlendis og krefst sýknu vegna ákæruliðnum sem snýr að peningaþvætti. 

„Gera ætti vel við hann

Hann segist ekki hafa verið skipuleggjandi, fjármögnunaraðili eða átt sérstakan hag af innflutningi kókaínsins. Þá hafi hann ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir heldur sífellt þurft að leita til annarra sakborninga í málinu til þess að vita hvernig hann ætti að bera sig að. 

Páll hafi einungis annast flutning gámsins hingað til lands, „annað ekki“. 

Í greinargerðinni segir að „einungis einum degi áður en meint fíkniefni voru væntanleg hingað til lands hittast ákærði X og ákærði Z [Jóhannes] og virðast með engu móti gera sér grein fyrir hvaða ferli er að fara í gang“. 

Páll, Daði og Jóhannes.
Páll, Daði og Jóhannes. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhannes á að hafa ítrekað sagt við Pál að hann myndi spyrja „strákana“ en Páll segist ekki vita hverjir þeir aðilar séu. 

Páll segist einungis hafa haft „óljósa hugmynd um að „gera ætti vel við hann“ fyrir hans þátt“. 

Fannst innflutningurinn spennandi 

Í greinargerðinni segir að Páll tók að sér að kaupa og flytja inn harðviðarhús og kom það hingað til lands í febrúar 2022. Ekkert saknæmt hafi verið að vinna í þeim gámi. 

Páll segir að honum hafi síðan verið tjáð að flytja ætti inn annan gám og að í honum yrðu fíkniefni. Páll hafi látið til leiðast „án þess að gera sér grein fyrir magni og verðmæti“.

„Honum hafi fundist þetta spennandi og á sama tíma ekki talið sig geta hafnað viðkomandi“.

Þá segir að Páll hafi reynt að þræta fyrir að hann væri notaður sem milliliður í innflutningi fíkniefna, en að honum hafi verið tjáð að það væri of seint að falla frá verkefninu þar sem búið væri að fjárfesta í efninu. 

Páll segir að þáttur hans í málinu sé svo veigalítill er málið er skoðað heildstætt og því skuli dómurinn líta til þess við ákvörðun refsingar. 

Einungis 10% rannsakað

Páll telur að hvorki hafi verið staðið rétt og faglega að vigtun hinna meintu efna né að sýnatöku fyrir greiningu á tegund og styrkleika. 

Lagt var hald á efnin í Hollandi og þeim eytt að mestu en enn er beðið eftir niður­stöðu dómskvadds mats­manns vegna frek­ari grein­ing­ar á kókaín­inu. 

Í greinargerðinni segir að einungis 10% kókaínsins hafi verið til skoðunar og því verið um ófullnægjandi rannsókn að ræða. Gerð er athugasemd við að enginn fulltrúi lögreglunnar á Íslandi eða verjandi ákærðu hafi verið viðstaddur rannsókn á efnunum. 

Skammast sín fyrir að hafa verið blekktur

Í greinargerð verjenda Daða, sem er 30 ára, segir að honum urðu þau mistök að fallast á þátttöku í málinu, „án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað í því fólst eða hvert umfangið var“. Líkt og Páll krefst hann sýknu að hluta. 

Daði hefur viðurkennt að hafa staðið að ræktun kannabisefna en eigi sér þó engan sakarferil að baki. 

Daða „var fengið afmarkað verkefni, að leigja iðnaðarhúsnæði, taka á móti trjádrumbum, fjarlægja efni úr drumbunum og afhenda öðrum manni.“

Fyrir þetta átti hann að fá greitt fimm milljónir króna, „sem endurspeglar ágætlega hvaða hugmynd ákærðu hafði um umfang alvarleika málsins“.

Þá er nefnt að Daði skammist sín mjög fyrir að hafa verið blekktur til þátttöku í málinu fyrir svo lága fjárhæð, „í ljósi þess hvert umfangið reyndist vera“.

Þá segir, líkt og í greinargerð verjanda Páls, að Daði hafi ekki átt neina aðkomu að skipulagningu, fjármögnun og tilraun til innflutnings á fíkniefnum til landsins.

Veigalítið hlutverk 

Í greinargerðinni segir að Daði hafi flækst inn í málið í júlí á síðasta ári og að það virðist vera að meðákærðu hafi haft vitneskju um hvað stóð til í lengri tíma áður en rætt var við Daða. Þá segir að Daði hafi ekki þekkt meðákærðu.

Daði á að hafa fengið „bein fyrirmæli í rauntíma“ og ekki fengið upplýsingar um hver næstu skref skyldu vera fyrr en sama dag og hann tók á móti trjádrumbunum. 

Því er hlutur Daða í málinu talinn veigalítill og aðkoma hans að sjálfum innflutningi efnanna til landsins engin.

Hann neitar einnig sök um peningaþvætti og segir að fjármálarannsókn lögreglu sé afar ófullkomin.

Lífið umturnast í gæsluvarðhaldi

Störf lögreglu eru gagnrýnd í greinargerðinni og segir að „hefði lögreglan að ósekju mátt fylgja hinni meintu fíkniefnasendingu mun lengur eftir, áður en ráðist var í handtökur, enda liggur fyrir að um gerviefni var að ræða og sú aðgerð hefði því verið með öllu áhættulaust. Ljóst er að sú rannsókn hefði leitt til þess að málið hefði verið betur upplýst.“

Þá gagnrýnir Daði einnig rannsóknina á fíkniefnunum og segir að verulegur vafi sé um innihald 90 pakkninga af 100 sem yfirvöld lögðu hald á. 

Í greinargerðinni segir að líf Daða hafi umturnast á meðan hann hefur setið í gæsluvarðhaldi. Hann hafi einsett sér að snúa við blaðinu og stefni ótrauður á að snúa aftur í samfélagið sem betri maður.

mbl.is