Ríkissáttasemjari mun leita til héraðsdóms

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari á fréttamannafundi vegna kjaradeilu Eflingar og SA.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari á fréttamannafundi vegna kjaradeilu Eflingar og SA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) mun ekki hefjast á hádegi á laugardag, eins og áformað var.

Þetta staðfestir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is. 

Efling hefur ekki orðið við tilmælum Ríkissáttasemjara um að koma kjörskrá til þeirra sem áformað er að sjái um rafræna atkvæðagreiðslu um tillöguna. Þess vegna mun embættið leita til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Atkvæðagreiðsla hefst er gögnin hafa borist

Embætti Ríkissáttasemjara hefur nú birt á vef sínum upplýsingar um miðlunartillöguna á nokkrum tungumálum. Þar getur félagsfólk Eflingar lesið sér til um tillöguna og reiknað út þá launahækkun sem þeir fá ef miðlunartillagan verður samþykkt. 

Þar segir einnig: „Atkvæðagreiðsla hefst þegar kjörgögn berast frá Eflingu.

Spurður hvort að embættið hafi verið í sambandi við stjórn Eflingar segir Aðalsteinn að ákveðnar bréfaskriftir hafi farið fram um afhendingu kjörgagnanna í dag.

„En ekkert umfram það.“

Dómstólinn taki málið fyrir í næstu viku

Spurður af hverju sé farið með málið til Héraðsdóms Reykjavíkur en ekki félagsdóms segir Aðalsteinn að það sé einfaldlega sú leið sem sé í boði. 

Héraðsdómur Reykjavíkur er sá aðili sem getur veitt atbeina við að fá kjörskrá á réttan stað, þannig að atkvæðagreiðslan geti átt sér stað eins og mælt er fyrir um í vinnulöggjöfinni,“ segir hann og bætir við sums staðar heyrist sá misskilningur að hann sjálfur sé að sækjast eftir að fá gögnin til sín.

Það sé ekki rétt og vel sé gætt sé að öllum persónuverndarsjónarmiðum.  

Aðalsteinn segist gera ráð fyrir að dómstóllinn muni taka málið fyrir í næstu viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina