Flókin deila og þung

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kveðst vonast til að …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kveðst vonast til að deiluaðilar nái saman um kjarasamninga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi deila er greinilega flókin og mjög þung. Það er auðvitað alltaf æskilegast að aðilarnir geti náð saman án þess að þurfi að koma til aðgerða á borð við þær sem við erum að horfa á hér,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um það þrátefli er nú ríkir á vinnumarkaði.

Hann segir málamiðlunartillögu ríkissáttasemja óvenjulega, ekki síst vegna óánægju deiluaðila, stéttarfélagsins Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, annars vegar vegna þess að tillagan sé komin fram, hins vegar vegna tímasetningar tillögunnar.

„Auk þess heyrum við af óánægju langt út fyrir raðir þessara tveggja deiluaðila þegar við horfum til aðila vinnumarkaðarins þannig að tillagan hefur hreyft við ýmsum sem er kannski sérstaklega vegna tímasetningarinnar eins og ég heyri málið,“ segir Guðmundur Ingi sem kveður mál Eflingar og SA ekki hafa verið tekið til umræðu á ríkisstjórnarfundum enn sem komið er.

Ríkissáttasemjari beri ábyrgð á málarekstri

Nú er héraðsdómur væntanlegur inn í þessar væringar vegna tregðu Eflingar við að leggja fram félagaskrá sína svo ganga megi til atkvæða um miðlunartillöguna. Hvernig líst ráðherra á þá þróun mála?

„Ríkissáttasemjari verður sjálfur að svara fyrir það hvernig hann rekur málið. Hann ber náttúrulega ábyrgð á því að leggja fram miðlunartillögu sem hann gerir með heimild í lögum. Það er á hans ábyrgð að meta hvenær sé tímabært að gera það og jafnframt að fylgja tillögunni eftir,“ svarar Guðmundur Ingi sem að lokum er inntur eftir væntingum sínum um málalok þegar þar að kemur.

„Maður vonast auðvitað alltaf til þess að aðilar vinnumarkaðarins nái saman um kjarasamningana. Það var mjög ánægjulegt að sjá hve mörg félög náðu saman fyrir áramótin og þar kom ríkisstjórnin náttúrulega að með þeim hætti að hækka barnabætur auk þess sem þær ná til stærri hóps fólks nú frá áramótum,“ segir ráðherra og nefnir enn fremur hækkun húsaleigubóta.

„Þetta er til þess fallið að liðka fyrir kjarasamningum og ekki síst að mæta fólki í þeirri dýrtíð sem nú er uppi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson að lokum.

mbl.is