Vill hitta Guðmund Inga fyrir fyrirtöku á morgun

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hákon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur óskað eftir áheyrn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumálaráðherra, ekki seinna en á mánudagsmorgun vegna framgöngu Aðalsteins Leifssonar, ríkissáttasemjara, í samningaviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. 

Sólveig birti bréf sitt til ráðherra í gærkvöldi og höfðar þar til ábyrgðar hans sem ráðherra vinnumarkaðsmála. 

Sjónarmið Eflingar virt að vettugi

Í bréfinu lýsir Sólveig skeytingaleysi Aðalsteins sem hún segir ekki á neinum tímapunkti hafa „vísað til, nýtt sér eða yfirhöfuð lýst efnislegum skilningi á þeim rökum og forsendum sem Efling hefur ítrekað lagt fram“.

Hún segir hann enn fremur hafa „endurómað og tekið undir með málflutningi Samtaka atvinnulífsins bæði á samningafundum og í opinberum yfirlýsingum“. 

Sólveig kallar fyrirheit um afturvirkar launahækkanir „innantóma hótun“ og „áróður“ sem ríkissáttasemjari endurópi og vísi ítrekað til.

Ekki í stöðu til þess að meta tap félagsmanna

„Augljóst er að á meðan samningar eru lausir geta hvorki Samtök atvinnulífsins né ríkissáttasemjari fullyrt nokkuð um hvaða ávinning eða tap Eflingarfélagar muni hljóta af væntri samningsgerð“.

Þá segir Sólveg miðlunartillögu Aðalsteins hafa  verið misnotkun á valdi hans og vísar til ummæla fleiri verkalýðsleiðtoga um hana í því samhengi.

Í samtali við mbl.is í gær sagði félags- og vinnumarkaðsráðherra miðlunartillögu Aðalsteins vera óvenjulega en sagði hann sjálfan þurfa að svara fyrir það.

„Ég legg þunga áherslu á að þú eigir fund með mér ekki síðar en á þeim tíma, þar sem seinna þann dag mun fara fram fyrirtaka í fyrrnefndu dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað og um kvöldið verða tilkynnt úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum,“ segir Sólveig en dómsmálið sem hún vísar þar til er ósk ríkissáttasemjara um afhendingu félagaskrár Eflingar. 

Bjartsýn fyrir komandi viku

Sólveig er sigurviss um niðurstöðu verkfallskosningar ef marka má Facebook-færslu hennar frá því í morgun.

"Þau eru öll hlynnt verkfallinu" sagði ein af Eflingar-konunum sem starfa sem þernur á Fosshóteli Reykjavík í viðtali við RÚV. Hversvegna? Jú, vegna þess að fólk vill lifa frjálst undan arðráni og ofríki auðræðisins,“ segir þar yfir lagi Patti Smith.

mbl.is

Bloggað um fréttina