Spjótin beinast að hótelum sem fóru verst út

Kristófer Oliversson, eigandi Center Hótels og formaður FHG.
Kristófer Oliversson, eigandi Center Hótels og formaður FHG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG), segir að félagið fylgist náið með yfirvofandi verkföllum félagsmanna Eflingar sem starfa á hótelum í Reykjavík.

„Við höfum fundað og velt þessu fyrir okkur, hvaða möguleikar séu í stöðunni,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Í gær samþykktu fé­lags­menn sem starfa á Íslands­hót­el­um til­lögu um verk­fall og munu því 287 starfs­menn hefja verk­fall að öllu óbreyttu eft­ir viku, þann 7. fe­brú­ar.

Þá boðaði stéttarfélagið frekari verkföll í dag á hót­el­um Reykja­vík Ed­iti­on og Berjaya Iceland hotels sem nær til um 500 félagsmenn til viðbótar. 

Kristófer nefnir að búið sé semja við allt hótelstarfsfólk nema félagsmenn Eflingar.

„Það er skynsamlegast að semja við Eflingu á sömu nótum með þessa afturvirkni, ef að hún næst,“ segir hann og bætir við að hún náist einungis með miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

„Markmið kjarasamninganna við stóran hluta launþegahreyfingarnar var að sameinast í baráttu við verðbólguna í stað þess að missa frekari tök á henni.“

„Þau voru bara lokuð“

Kristófer nefnir að verkfallsaðgerðunum sé beint að hótelum í Reykjavík sem fóru langverst út úr Covid af öllum fyrirtækjum.

„Hótelin í Reykjavík höfðu engin viðskipti. Þau voru bara lokuð,“ segir hann. 

„Við undrumst það að þeir eigi að vera þeir aðilar sem leiða þessar kjarabætur,“ segir Kristófer og bætir við að síðasta verkfall hótelstarfsmanna, árið 2019, hafi einungis tekið til hótela í Reykjavík. Heimsfaraldurinn varði í kjölfarið í meira en tvö ár. 

„Menn eru ekki búnir að ná vopnum sínum eftir síðustu Covid-ár sem rétt dvínuðu út í júní síðastliðnum. Svo það eru rétt sex mánuðir síðan.“

Þúsundir gesta sem þarf að sinna

Bæði verkfallið sem hefur verið samþykkt og verkfallsboðanirnar sem eftir á að greiða atkvæði um eru ótímabundnar. 

Kristófer segir að hvert hótel fyrir sig undirbúi verkfallið sem sé ekki einfalt mál. 

„Þetta eru þúsundir gesta sem eru að koma og þarf að sinna. Því verður ekki snúið svo glatt við.“ 

mbl.is