Ekkert formlegt fundarboð borist

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það alrangt að ekki verði af fundi ríkissáttasemjara vegna fjarveru Eflingar. Þá hafi ekkert formleg fundarboð borist henni frá embættinu. 

Í tilkynningu í gær sem birtist á vef Eflingar var greint frá svari sem Sólveig sendi embættinu í gærkvöldi. 

Þar sagði að Sólveig væri tilbúin til að mæta á fund til að ræða málin frekar, en hún kæmist ekki á tilsettum tíma í dag vegna anna. Þá tæki tíma að boða samninganefndina á fund ríkissáttasemjara. 

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari staðfesti við mbl.is í morgun að ekki yrði af fundinum í dag. 

Efling „farið að lögum í einu og öllu“

Í færslu á Facebook bendir Sólveig einnig á að í erindinu sem hún sendi embættinu í gær hafi hún ítrekað afstöðu Eflingar og tilkynnt um að félagið myndi krefjast þess að skipaður yrði staðgengill ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA.

Hún segir að embættið hafi ekki enn svarað þeim pósti. 

Magnað að nú sé lagst svo lágt að láta sem að Efling neiti að mæta. Staðreyndin er sú að Efling hefur farið að lögum i einu og öllu, ólíkt öðrum í því fordæmalausa ástandi sem að við verðum nú vitni að,“ segir í færslunni. 

Þá spyr hún hvort ríkissáttasemjari ætli að senda lögregluna á skrifstofu Eflingar til að sækja kjörskrá stéttarfélagsins, en Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að stéttarfélaginu bæri að afhenda hana. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina