Biðla til stjórnvalda að afstýra neyðarástandi

Frá mótmælum Eflingar í dag.
Frá mótmælum Eflingar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Augljóst er að verði verkfall Eflingar lengra en nokkrir dagar getur orðið til neyðarástand, sem felst í því að fyrirtæki sem annast dreifingu lífsnauðsynja fái annars vegar ekki birgðir vegna verkfalls starfsmanna Samskipa og geti hins vegar ekki annast dreifingu með eigin bifreiðum vegna þess að ekki fæst eldsneyti á þær.“

Þetta kemur fram í bréfi frá Félagi atvinnurekanda (FA) til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Bréfið var sent vegna verkfallsboðunar Eflingar hjá bílstjórum Olíudreifingar, Skeljungs og Samskipa sem var samþykkt í gær og á að hefjast 15. febrúar.

Geti haft víðtæk áhrif

Að mati FA getur verkfallið haft þær afleiðingar að skortur verði á lífsnauðsynlegum lyfjum, lækningatækjum og heilbrigðisvörum og á matvælum, jafnt í verslunum sem á sjúkra- og menntastofnunum.

FA bendir á að innan félagsins eru mörg fyrirtæki sem má telja til mikilvægra innviða landsins. 

„Þar á meðal eru margir af stærstu matvörubirgjum landsins. Þau fyrirtæki dreifa matvælum til almennra verslana, leik- og grunnskóla, sjúkrahúsa, öldrunarheimila og annarra heilbrigðisstofnana. Félagsmenn FA standa fyrir um 40% af dreifingu lyfja og hjúkrunarvara til sjúkrastofnana, apóteka og skjólstæðinga Sjúkratrygginga,“ segir í bréfinu.

Telja undanþágur lífsnauðsynlegar

FA segir það því ljóst að undanþágur verði að vera til staðar frá verkfalli svo að dreifing lífsnauðsynja raskist ekki. 

„Þannig þurfa flutningsaðilar innfluttra vara að geta aflað eldsneytis til að geta ekið vörum frá höfn og í vöruhús matvæla- og lyfjabirgja. Bílstjórar matvæla- og lyfjabirgja eða verktakar á þeirra vegum þurfa að geta aflað eldsneytis á bifreiðar til að dreifa lyfjum og lífsnauðsynjum.“

Til stuðnings máli sínu vísar FA til kafla almannavarnalaga um gerð viðbragðsáætlana vegna neyðarástands. FA biðlar því til stjórnvalda að setja upp viðbragðsáætlun vegna mögulegs ástands. 

mbl.is