„Hefðum viljað sjá meiri sparnað“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gagnrýnir að ríkið hafi ekki haldið eftir meira af þeim tekjuauka sem kom í gegnum ríkissjóð með auknum hagvexti og meiri neyslu landsmanna. „Við hefðum gjarnan viljað sjá meira af þeim tekjuauka haldið eftir með minni útgjöldum,“ segir hann í samtali við mbl.is, eftir kynningarfund peningastefnunefndar bankans sem haldinn var í morgun.

Hann ræddi einnig um fastvaxtalán sem losna fljótlega, hvort komi til greina að Seðlabankinn grípi reglulega inn á gjaldeyrismarkaði og hvort tekjulægri hópar séu aðallega að taka höggið í verðbólgu.

Áhyggjur af því að verðbólga skili sér í verðlag

Bankinn hækkaði stýrivexti sína um 0,5 prósentustig, upp í 6,5% í dag, en í síðustu viku var greint frá því að verðbólga í janúar hefði mælst 9,9%. Virðist hún því lítið á leiðinni niður á við eins og peningastefnunefnd vænti á síðustu tveimur fundum sínum.

Auk þess að gagnrýna aðhald í ríkisrekstrinum segir Ásgeir að nýir kjarasamningar hafi verið þyngri en búist var við og þá hafi neysla landsmanna lítið dregist saman. Hann hefur áhyggjur af því að há verðbólga skili sér beint út í verðlag fyrirtækja og að slíkt ástand komi verst niður á lægri tekjuhópum.

Kjarasamningar á almenna markaðinum liggja nú margir hverjir fyrir, en enn stendur þó samningur Eflingar og SA út af borðinu. Þar virðist stál vera í stál og verkföll þegar hafin.

Samningarnir eru þó allir skammtímasamningar út þetta ár og taka því viðræður aftur við þegar líður á haustið. Í millitíðinni eru samningar á opinbera markaðinum aftur á móti lausir.

Tónninn varðandi kjarasamninga breyst

Ásgeir var nokkuð jákvæður í desember þegar fyrstu samningar á milli SGS og SA lágu fyrir. Tónninn núna er þó nokkuð annar og talar bankinn um þunga kjarasamninga. Spurður hvað hafi breyst frá þeim tíma og til dagsins í dag segir Ásgeir að það hafi verið jákvætt að tekist hafi að semja á þessum tíma þar sem óvissan skemmi alltaf og þá valdi samningsleysi á sama tíma og verðbólga éti niður kaupmátt óróleika.

„Þannig að það var jákvætt að það var samið,“ segir hann, en bætir við að bankinn hafi jafnframt ekki haft fullnægjandi kostnaðarmat samninganna á borðinu þá.

Á fundinum í morgun var Ásgeiri tíðrætt um áhrif af kjarasamningunum á verðbólguna. Segir hann við mbl.is að vonandi muni sú lína sem sett hafi verið um 6,75% hækkun launa halda í gegnum allar viðræðurnar.

„Ég get ekki tekið afstöðu til einstakra hópa á vinnumarkaði, en það hefur verið tekin ákveðin lína á vinnumarkaði og ég vona að hún haldi fyrir alla hópa,“ segir Ásgeir. Með því og ef verðbólga lækkar á sama tíma verði hægt að setjast að samningaborðinu í haust til að vinna að langtímasamningi þar sem lægri verðbólguvæntingar séu til hliðsjónar.

Vísar Ásgeir til þess að lífskjarasamningurinn hafi verið gerður til þriggja ára. „Hann skilaði miklum ávinningi ef litið er til tímabilsins í heild, þó að síðustu sex mánuðir hafi ekki verið góðir,“ segir hann.

„Ríkisfjármálin, dýrir kjarasamningar og veiking krónunnar“

Síðustu mánuði segir Ásgeir að allt hafi lagst á eitt við að ýfa upp verðbólguna. „bæði ríkisfjármálin, dýrir kjarasamningar og veiking krónunnar,“ telur hann upp. Þá hafi minni sparnaður heimilanna haft sitt að segja, en sú þróun hafi komið fram í aukinni neyslu sem svo ýti upp verðlaginu.

Varðandi ríkisfjármálin segir Ásgeir að ganga hefði átt lengra í aðhaldi. „Við hefðum viljað sjá meiri sparnað.“ Hann segist þó ekki vilja taka afstöðu til þess hvar hefði átt að skera niður, en vísar til þess að með auknum hagvexti hafi tekjur ríkissjóðs aukist töluvert og rétt hefði verið að halda þeim fjármunum eftir í ríkissjóði frekar en að auka útgjöldin.

Vaxtahækkanir frekar en inngrip á markað

Sjá má merki um neyslu landsmanna í tengslum við viðvarandi viðskiptahalla og veikingu krónunnar. Spurður hvort komi til greina að selja úr forða Seðlabankans með reglulegri sölu til að verja gengið fyrir frekari veikingu segir Ásgeir það ekki planið. Frekar verði gripið til frekari vaxtahækkana.

„Viðskiptahallinn núna stafar af öðru en í covid þegar ein útflutningsgrein hvarf, ferðaþjónustan, og kom inn aftur. Við gátum þá farið inn á gjaldeyrismarkaðinn til að brúa gapið sem var fyrirséð. En það er erfitt fyrir að okkur að fara á gjaldeyrismarkaðinn núna og ætla að fjármagna viðskiptahalla sem stafar af of mikilli neyslu. Það er miklu betra að breyta stýrivöxtum heldur en að fjármagna þetta með inngripum,“ segir Ásgeir.

Hann segir fólk hafa leyft sér mikið eftir faraldurinn og þau tvö ár, en að bankinn sjái þess nú merki að fólk sé farið að draga úr og hægja á. „Ef þetta er bara færsla yfir tíma að fólk sé að bæta sér þessi tvö leiðinlegu ár, þá gætum við séð þensluna ganga nokkuð hratt niður og fólk fer að aðlaga eyðsluna,“ segir Ásgeir en tekur þó fram að ekki sé hægt að sjá fyrir gjörðir fólks sem taki sjálfstæðar ákvarðanir.

Óvíst hvað verði um fastvaxtalánin

Eitt af helstu atriðunum sem snerta almenning þegar kemur að vaxtahækkunum eru vaxtahækkanir íbúðalána. Á þessu ári ættu einnig talsvert af óverðtryggðum lánum að losna úr fastvaxtaferli og má búast við að vextir sem í boði verða muni hækka afborganir margra. Ásgeir segir þetta enn eina ástæðuna fyrir því að ná þurfi verðbólgunni niður sem fyrst og í framhaldinu vöxtum. Hann hefur sjálfur talað fyrir óverðtryggðum vöxtum og að slíkt kerfi auðveldi peningastjórn landsins í gegnum vaxtabreytingar.

Undanfarið hefur verið talsverður flótti úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð. Spurður hvort hann telji mikla aukna færslu fram undan segir Ásgeir ekki alveg átta sig á því. „Það veltur allt á hver verðbólga og stýrivextir verða á þeim tíma. Það liggur fyrir að fólk getur lækkað greiðslubirgði töluvert með að fara í verðtryggt,“ segir hann, en bætir við að hagstæðara hafi hins vegar verið fyrir fólk að staðgreiða verðbólguna í gegnum hærri greiðslubirgði óverðtryggðra lána.

En væri slík sveifla ekki bakslag fyrir þessa hugmynd sem hefur verið með óverðtryggðu lánin? „Jú algjörlega og það er ekki eitthvað sem við höfum viljað,“ segir Ásgeir.

„Þeir tekjulægri finna mest fyrir verðbólgu“

Hann tekur svo fram að þeir hópar sem eigi mest undir að ná verðbólgu niður séu tekjulægri hópar.

„Þeir tekjulægri finna mest fyrir verðbólgu og finna mest fyrir hækkun lífsnauðsynja og mögulega fólk á leigumarkaði. Við vonum að peningastefnan komi ekki illa niður á þessum hópum, en við erum samt að vinna fyrir þessa hópa, því þetta eru þeir hópar sem skiptir mestu máli að verðbólgan gangi niður.“

Þrátt fyrir þessi orð er ljóst að neysla hefur ekki dregist saman. Það vekur upp spurningar hvort tekjuhærri hópar hafi haldið neyslunni gangandi meðan stærsta höggið geti komið á tekjulægri hópa.

„Við skulum vona ekki. Við sjáum að þessi neysla er rekin áfram að sjálfsaflafé. Erum ekki að sjá yfirdráttalán aukast mikið. Fólk á þennan pening. Það skiptir miklu máli og því ólíkt því sem var á árunum fyrir 2008 þegar fólk tók lán fyrir neyslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina