Aðhaldsaðgerðir en ekki „róttækur niðurskurður“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir þörf á auknu aðhaldi í rekstri ríkisfjáramála og aukinni tekjuöflun til að mæta skæðri verðbólgu og miklum hallarekstri ríkisins. Hún segir stöðuna snúna, að enginn einn þáttur sé drífandi, heldur þurfi margt að koma til til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Katrín segist hins vegar líta fréttir dagsins af vinnumarkaði jákvæðum augum og það sé einn liður í að vinna gegn verðbólgunni.

Fyrr í vikunni birti Hagstofan febrúar verðbólgumælingu sína og var niðurstaðan 10,2% ársverðbólga – sú hæsta í um 14 ár. Spurð út í viðbrögð við þessari stöðu rifjar Katrín upp að staðan sé snúin meðal annars vegna þess hversu mikla fjármuni hið opinbera hafi lagt í hagkerfið í faraldrinum. „Svo þegar faraldrinum linnir og við teljum okkur vera að komast á lygnari sjó gerist það auðvitað að stríðið hefst með þessari tilheyrandi verðbólgu í Evrópu og vestanhafs,“ bætir hún við.

Snúin staða

Katrín tekur fram að staðan núna hér á landi einkennist af miklum hagvexti og miklum umsvifum í efnahagslífinu. Þá sé atvinnuleysi nánast ekki neitt og því mikil spenna í kerfinu. Þá hafi aðgerðir Seðlabankans í faraldrinum haft talsverð áhrif á verðlagsþróun á húsnæðismarkaði sem nú sé unnið gegn með vaxtatækinu. Að lokum skipti staðan á vinnumarkaðinum miklu máli í þessu samhengi.

„Þetta er snúin staða og verðbólgan er á breiðum grunni, það er enginn einn þáttur sem keyrir þetta áfram. Það liggur fyrir að það er margt sem þarf að koma til til að ráða niðurlögum hennar,“ segir Katrín um baráttuna gegn verðbólgunni. Bætir hún jafnframt við að almennt hafi hagfræðingar ekki séð fyrir þessi tíðindi um hækkun verðbólgunnar, heldur hafi flestir á móti spáð því að hún myndi hjaðna í febrúar.

„Lögðum fram tiltölulega aðhaldssöm fjárlög

Talsverð gagnrýni hefur komið fram um stöðu ríkisfjármála og að ekki sé meira aðhald þar með tilheyrandi áhrifum á verðbólguna. Gera fjárlög meðal annars ráð fyrir um 120 milljarða halla. Meðal þeirra sem hafa nefnt þörf á auknu aðhaldi ríkissjóðs er Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Katrín segir að hún geti ekki tekið undir þessa gagnrýni. „Við lögðum fram tiltölulega aðhaldssöm fjárlög hér á síðasta ári. Vissulega urðu einhverjar viðbætur við aðra umræðu fjárlaga sem mikið hefur verið rætt um, en það er fyrst og fremst ákveðin grunnþjónusta sem ég tel að hafi ríkt gríðarleg samstaða um að hafa bætt í.“

En er eðlilegt að ríkið sé í miklum hallarekstri á sama tíma og mikil þensla er og hagvöxtur mikill? Katrín vísar aftur til þess að hallareksturinn sé til kominn vegna aðgerða í faraldrinum og að uppi séu áætlanir sem miði að því að vinna hallann niður. „Við settum okkur ákveðin tímamörk í þeim efnum sem miða að því að geta tryggt ákveðna þætti grunnþjónustunnar í samfélaginu þannig að hún verði ekki fyrir skaða þótt við séum að draga úr hallanum.“

Þurfa að bregðast við með aðhaldi

Katrín segir þetta þó ekki þýða að staðið verði hjá aðgerðalaus í hækkandi verðbólgu. „Við þurfum að horfa á þetta og takast á við þetta og það getum við gert á okkar vettvangi m.a. með auknu aðhaldi í rekstri ríkisfjármála og tekjuöflun.“

Stóra atriðið að mati Katrínar snýst um að áætlanir standist þegar komi að ríkisútgjöldum og vísar þar til þess að ríkisstofnanir þurfi að halda sig innan fjárhagsramma og fari ekki fram úr heimildum. Til viðbótar geti svo komið til „hófslegs aðhalds“ og segir Katrín ríkisstjórnina nú skoða þau mál.

Almenn aðhaldskrafa en ekki „róttækur niðurskurður“

Spurð nánar út í þessi orð segir Katrín að það kunni að koma til almennrar aðhaldskröfu hjá stofnunum ríkisins, en ítrekar að það verði ekki „róttækur niðurskurður.“

Katrín bendir jafnframt á að staða Íslands sé góð í alþjóðlegum samanburði, ekki síst sé skuldastaðan góð. „Þó verðbólgumælingin sé vonbrigði og ég hef þungar áhyggjur af þeirri stöðu er mikilvægt að muna að við erum ekki í samdrætti á sama tíma eins og mörg önnur Evrópuríki. Það er annað viðfangsefni,“ segir Katrín að lokum.

mbl.is