Katrín fagnar miðlunartillögunni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist fagna því að ríkissáttasemjari hafi lagt fram miðlunartillögu í deilu Eflingar og SA en um það var tilkynnt fyrr í morgun. Segir hún að ef tillagan verði samþykkt muni það skipta miklu máli hér á landi, bæði á vinnumarkaði sem og fyrir stöðuna í efnahagslífinu.

„Þetta eru auðvitað mjög góð tíðindi,“ segir Katrín í samtali við mbl.is eftir að ljóst varð að tillagan hefði komið fram í sátt við deiluaðila. „Ég held að þetta skipti verulegu máli upp á stöðuna, ekki bara á vinnumarkaði, heldur líka í efnahagslífinu almennt. Það skiptir gríðarlegu máli að það fáist farsæl lending í þessa þungu vinnudeilu sem hefur staðið lengi og hefur verið mjög hörð,“ segir Katrín.

Katrín tekur fram að auðvitað sé atkvæðagreiðsla um tillöguna eftir, en að hún vonist til þess að tillagan verði ávísun á farsæla lendingu í málinu. „Það skiptir máli fyrir efnahagslífið almennt og þróun mála fram undan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert