4,4 milljarðar í viðhald

Norðlingaskóli er í forgangi 1.
Norðlingaskóli er í forgangi 1. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Gert er ráð fyrir viðhaldi fyrir um 4,4 milljarða króna á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar Reykjavíkurborgar á þessu ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg og er hluti af 30 milljarða viðhaldsátaki í húsnæði skóla- og frístundasviðs á árunum 2022-2026.

Forgangsröðun á viðhaldsframkvæmdunum liggur nú fyrir en skipt hefur verið niður í fimm forgangsflokka sem hægt er að skoða eftir hverfum,“ segir í tilkynningunni og til grundvallar við forgangsröðun liggur ástandsskoðun sem fram fór árin 2020 til 2021. Þá segir að áætlunin verði endurskoðuð eftir þörfum. 

113 eignir á forgangslista

Húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í eigu Reykjavíkurborgar er alls rúmlega 265 þúsund fermetrar að stærð í 136 eignum. Veginn meðalaldur eignanna er um 46 ár, mishár eftir hverfum borgarinnar.

Í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir hefur eignum verið skipt upp í fimm forgangsflokka. Alls eru 113 eignir taldar upp í forgangslistanum sem framkvæmt verður eftir til ársins 2028.

Samhliða viðhaldsátakinu verður almennu og tilfallandi viðhaldi sinnt. Einnig verða gagngerar endurbætur eða gerð viðbygginga unnar samhliða átakinu.

37 eignir eru í forgangi 1 og eru þar á meðal Fossvogsskóli og Norðlingaskóli og leikskólarnir Hlíð og Grandaborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert