Fara eigi með greinargerðina sem vinnuskjal

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. Forsætisnefnd ákvað að birta greinargerð setts …
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. Forsætisnefnd ákvað að birta greinargerð setts ríkisendurskoðanda á síðasta ári en þrátt fyrir það hefru hún ekki enn verið birt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér tilkynningu er varðar málefni Lindarhvols ehf. og greinargerð setts ríkisendurskoðanda um eftirlitsstörf hans við úttekt á málefnum félagsins sem stóð yfir frá 19. september 2016 til 30. apríl 2018.

Segir í tilkynningunni að afstaða Ríkisendurskoðunar sé sú að fara eigi með greinargerð setts ríkisendurskoðanda sem vinnuskjal í samræmi við lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga (Ríkisendurskoðendalög).

Ganga framar upplýsingalögum

Ríkisendurskoðendalögin, gilda um greinargerð setts ríkisendurskoðanda og að þau ganga framar upplýsingalögum, að því að Ríkisendurskoðun telur.

Ríkisendurskoðun telur brýnt að málsmeðferð Alþingis í yfirstandandi umræðum um greinargerðina gæti að óhæði og sjálfstæði ríkisendurskoðanda og bendir á að það sé ekki á valdi Alþingis að veita aðgang að vinnuskjali sem verður til við lögbundin störf embættisins.

Gætti ekki að málsmeðferðarreglum

Segir Ríkisendurskoðun að settur ríkisendurskoðandi hafi ekki gætt að málmeðferðarreglum Ríkisendurskoðendalaga með því að gæta ekki að umsagnarrétti samkvæmt lögunum. Ríkisendurskoðun segir engan þeirra aðila sem úttektin beindist að hefi fengið að koma að athugasemdum við þær upplýsingar sem koma fram í greinargerð setts ríkisendurskoðanda.

Telur Ríkisendurskoðun að með því að veita aðgang að vinnuskjali sem hefur að geyma upplýsingar sem settar eru fram án þess að gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum Ríkisendurskoðendalaga væri verið að setja varasamt fordæmi sem kynni að vega að sjálfstæði embættisins, eins og segir í tilkynningunni.

Verkefninu ekki lokið

Þá segir Ríkisendurskoðun að fjallað sé um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun í Ríkisendurskoðendalögum. Þar segir að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent en að undanþegin aðgangi séu drög að slíkum gögnum sem hafi verið send aðilum til kynningar eða umsagnar.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2018, afhenti settur ríkisendurskoðandi forseta Alþingis greinargerð sína og óskaði lausnar frá setningu sem settur ríkisendurskoðandi með formlegum hætti. Í bréfi setts ríkisendurskoðanda til forseta Alþingis, þar sem hann óskaði lausnar frá setningu sem settur ríkisendurskoðandi með formlegum hætti, kemur skýrt fram að verkefninu sé ekki lokið og að greinargerðin, ásamt öllum vinnugögnum, hafi jafnframt verið send ríkisendurskoðanda.

Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu

Þess vegna telur Ríkisendurskoðun grundvallaratriði að skýrsla Ríkisendurskoðunar verði ekki gerð opinber fyrr en embættið hefur lokið viðkomandi úttekt og afhent Alþingi hina endanlega skýrslu, að gættum málsmeðferðarreglum laganna, þar á meðal umsagnarrétti þess aðila sem úttekt beinist að.

Þá er jafnframt bent á að Ríkisendurskoðun skilaði Alþingi skýrslu um Lindarhvol í apríl 2020, en einungis sú skýrsla hafi að geyma endanlega úttekt og niðurstöður embættisins hvað málefnið varðar. Tilgangurinn með því er að tryggja sem best að ríkisendurskoðandi byggi athuganir sínar á réttum upplýsingum og gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert