Skiptar skoðanir um getu Gæslunnar

Andrés Ingi segir ekki fara saman, fjárhagsþörf Landhelgisgæslunnar og aðgerðir …
Andrés Ingi segir ekki fara saman, fjárhagsþörf Landhelgisgæslunnar og aðgerðir stjórnvalda. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Skiptar skoðanir voru um björgunargetu Landhelgisgæslunnar í sérstakri umræðu þess efnis á Alþingi í dag.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, segir að traust almennings til Gæslunnar endurspeglist ekki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og þeirra fjármuna sem varið er til stofnunarinnar. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir getu björgunaraðila hér á landi aldrei hafa verið eins öfluga.

Andrés Ingi segir hluta af ástæðu fjársveltis Gæslunnar vera að stórútgerðin sem notar þjónustuna greiði ekki til samfélagsins til þess að halda þjónustunni úti.

„Í dag eru þau veiðigjöld sem sjávarútvegurinn borgar það lág að þau duga ekki til að dekka kostnað við Fiskistofu, hafrannsóknir eða löggæsluhluta Landhelgisgæslunnar,“ segir Andrés Ingi.

Hann segir dómsmálaráðherra ekki hafa lært af skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir ári síðan.

„Þar er bent á að drög að Landhelgisgæsluáætlun verði að teljast óraunhæf í ljósi þess að það sem Gæslan segir að þurfi og það sem ríkisstjórnin er tilbúin að skammta, það stenst engan veginn á, það munar miklu.“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Arnþór

Aldrei verið eins öflug

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að það þurfi að horfa til miklu fleiri þátta þegar horft er til björgunargetu á Íslandi heldur en til Landhelgisgæslunnar.

„Vegna þess að Landhelgisgæslan er bara eitt hjól undir þeim vagni sem kemur að leit og björgun,“ segir Jón.

„Það er staðreynd að geta Gæslunnar og geta björgunaraðila á Íslandi hefur aldrei í sögunni verið eins öflug eins og hún er í dag. Tækjakostur Landhelgisgæslunnar hefur aldrei verið eins öflugur.“

Þá segir Jón ríkisstjórnina vera að fara að undirrita samning við Landsbjörg um endurnýjun á 13 stórum björgunarskipum innan fimm ára.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óviðunandi frá brotthvarfi varnarliðsins

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir vanrækslu Gæslunnar vera pólitíska ákvörðun Sjálfstæðisflokksins.

„Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu sem sendar voru fjárlaganefnd hefur Landhelgisgæslan ekki náð að halda uppi viðunandi öryggis- og þjónustustigi frá brotthvarfi varnarliðsins árið 2006. Það er pólitísk ákvörðun að hafa það með þeim hætti,“ segir Helga Vala.

Hún segir að fram hafi komið í úttekt á starfsemi Gæslunnar frá árinu 2015 að rekstur hennar hafi verið undir ásættanlegu þjónustu- og öryggisstigi. Þá bætir hún við að flugmenn Gæslunnar hafi verið án kjarasamninga árum saman.

„Þessi vanræksla er pólitísk ákvörðun ekki eins, heldur fimm dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratug sem og fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins,“ segir Helga Vala.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn afsláttur gefinn

Margir fleiri þingmenn ræddu málið á Alþingi í dag en það var Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem sló botninn í umræðuna.

„Það verður enginn afsláttur gefinn af viðbragðs- eða björgunargetu við leit og björgun á meðan ég er í dómsmálaráðuneytinu. Það mun ekki gerast á minni vakt,“ sagði Jón.

mbl.is