„Kerfið ver sig“

Sigurður Valtýsson er einn eigenda Frigusar.
Sigurður Valtýsson er einn eigenda Frigusar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn eigandi félagsins Frigusar II segir niðurstöðu héraðsdóms í dag, í máli félagsins gegn íslenska ríkinu og Lindarhvoli,  vera mikil vonbrigði og að farið verði yfir dóminn og ákvörðun um áfrýjun til Landsréttar tekin í kjölfarið. Hann gagnrýnir jafnframt að ekki hafi verið tekið mið af framburði fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málinu.

Lind­ar­hvoll hafði til sölumeðferðar hlut rík­is­ins í Klakka ehf. og skulda­kröf­ur, en Frigus II ehf. var einn þriggja aðila sem lögðu fram kauptil­boð í eign­ina. For­svars­menn fé­lags­ins töldu sig hafa lagt fram hæsta til­boðið og þannig hefði fé­lagið verið hlunn­farið í sölu­ferl­inu þegar til­boði ann­ars fé­lags, BLM fjár­fest­inga ehf., var tekið. Var for­svarsmaður BLM fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Klakka.

Frigus höfðaði málið og fór fram á 650 milljónir í bætur, en til vara að samþykkt yrði skaðabótakrafa. Niðurstaða héraðsdóms í dag var að sýkna bæri ríkið og Lindarhvol af öllum kröfum Frigusar.

Arnar Þór Stefánsson lögmaður sést hér fara yfir dóminn ásamt …
Arnar Þór Stefánsson lögmaður sést hér fara yfir dóminn ásamt Sigurði Valtýssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Valtýsson, er forsvarsmaður og einn eigandi Frigusar ásamt Ágústi og Lýði Guðmundssonum.  „Dómurinn er okkur mikil vonbrigði. Þau gögn og vitnisburðir sem komu fram við aðalmeðferð málsins sýndu alvarlegar brotalamir í tengslum við söluna á eignarhlut ríkisins hjá Lindarhvoli. Jafnræði var ekkert, gagnsæið hverfandi og leyndarhyggja ríkjandi, þvert á lög og siðareglur félagsins,“ segir hann í tilkynningu með fyrirsögninni „Kerfið ver sig.“ Segir hann mikil vonbrigði að dómarar málsins hafi litið framhjá þessum ágöllum.

Greinargerðin „enn læst í skúffu varðhunda kerfisins

Í samtali við mbl.is gagnrýnir hann einnig ákvörðun dómarans í tengslum við aðkomu Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi sett ríkisendurskoðanda, sem sagði fyrir dómi að ríkið hefði orðið af 530 milljónum við söluna. „Það er eins og dómarinn sem ákvað að Sigurður mætti ekki bera vitni og við þurftum úrskurð Landsréttar til að fá Sigurð í vitnastúkuna, hafi bara haldið sig við fyrri ákvörðun og ekki metið framburð hans,“ segir hann við mbl.is

„Greinargerð Sigurðar Þórðarsonar er enn læst í skúffu varðhunda kerfisins og kom þannig ekki til skoðunar fyrir dómi. Hvað er verið að fela? Óþolandi og ólíðandi er að gögn sem eiga að vera opinber skulu falin í þessu dómsmáli, ríkinu til hagsbóta,“ bætir Sigurður við.

mbl.is