Lindarhvoll og ríkið sýknað

Arnar Þór Stefánsson lögmaður sést hér fara yfir dóminn ásamt …
Arnar Þór Stefánsson lögmaður sést hér fara yfir dóminn ásamt Sigurði Valtýssyni, sem er einn eigenda Frigusar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska ríkið og Lindarhvoll ehf. voru í dag sýknuð af kröfum félagsins Frigusar II ehf. um bætur vegna sölu á eignarhlut ríkisins í Klakka, en það var Lindarhvoll, félag í eigu ríkisins, sem sá um söluna á sínum tíma.

Sigurður Valtýsson, einn eiganda Frigusar, segist telja líklegt að málinu verði áfrýjað en að ákvörðun verði tekin þegar búið verður að fara yfir dóminn. 

Frigus II ehf. höfðaði mál á hend­ur Lind­ar­hvoli og ís­lenska rík­inu vegna sölu Lindarhvols á hlut ríkisins í Klakka. Fór lögmaður Frigusar fram á rúmlega 650 milljóna bætur í málinu ásamt vöxtum frá því í apríl 2019.

Lindarhvol var félag sem stofnað var af fjármálaráðherra til að hafa umsjón með þeim eignum sem komu til ríkisins í gegnum Seðlabanka Íslands í tengslum við stöðugleikframlög slitabúa bankanna. Hafði félagið svo umsjón með sölu eignanna. Ein þeirra eigna var hlutur ríkisins í Klakka, en hann var seldur árið 2016. Gert var samkomulag við Steinar Þór Guðgeirsson hjá Íslögum um framkvæmdastjórn með félaginu, en hann er jafnframt verjandi Lindarhvols í málinu.

Frigus  II er  í eigu Ágústs og Lýðs Guðmunds­son­ar og Sig­urðar Val­týs­son­ar og var félagið einn þriggja aðila sem lögðu fram kauptil­boð í eign­ina. Það gerði Frigus II ehf. í gegn­um Kviku banka sem gert hafði samn­ing um að miðla eign­inni til fé­lags­ins ef af kaup­un­um yrði. For­svars­menn Frigus II ehf. töldu sig hafa lagt fram hæsta til­boðið og þannig hefði fé­lagið verið hlunn­farið í sölu­ferl­inu þegar til­boði ann­ars fé­lags, BLM fjár­fest­inga ehf., var tekið. Höfðaði Frigus II ehf. skaðabóta­mál í kjöl­farið.

Inn í málið fléttast úttekt ríkisendurskoðanda á málefnum Lindarhvols og greinargerð sem forseti Alþingis hefur setið á undanfarið og ekki viljað birta. Þannig var Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda. Átti hann að vinna skýrslu að beiðni þingsins um starfsemi Lindarhvols.

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi.
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkru síðar var hins vegar Skúli Eggert Þórðarson skipaður ríkisendurskoðandi og tók hann við málinu þar sem hann var ekki vanhæfur. Skilaði hann skýrslu árið 2020 þar sem engar athugasemdir voru gerðar við störf stjórnar félagsins eða rekstur þess.

Það virðist nokkuð í andstöðu við þá vinnu sem Sigurður var kominn af stað með, en hann skilaði greinargerð til fjármálaráðherra sem enn hefur ekki verið birt af forseta Alþingis. Í skýrslutöku í dómsmáli Frigusar gegn Lindarhvoli fékkst hins vegar heimild til að leiða Sigurð fyrir dóminn og var hann þar spurður út í skoðun sína. Sagði hann m.a. hafa gert athugasemdir við aðkomu Steinars Þórs að rekstrinum og að líklega hefði ekki verið nægjanlegur aðskilnaður starfa heldur hafi hann verið allt í öllu.

Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður á Íslögum og fyrrverandi framkvæmdastjóri Lindarhvols.
Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður á Íslögum og fyrrverandi framkvæmdastjóri Lindarhvols. mbl.is/RAX

Jafnframt sagði Sigurður að mat hans og endurskoðandans Stefáns Svavarssonar á verðmæti eignarhluta ríkisins í Klakka hefði verið um 950 milljónir, en endanlegt söluverð hafi hins vegar aðeins verið 423 milljónir. Taldi Sigurður að ríkið hefði því orðið af um 530 milljónum vegna sölunnar.

Á Alþingi hafa miklar umræður farið fram um greinargerð Sigurðar og hvort Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, eigi að afhenda greinargerðina. Hefur Birgir sagt að greinargerðin sé vinnuskjal og því megi ekki afhenda hana, en stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt leyndarhyggjuna í kringum greinargerðina. Þá hefur núverandi ríkisendurskoðandi blandað sér í málið og sagði í tilkynningu á dögunum að greinargerðin væri vinnuskjal sem mætti ekki birta og vísað var í lög um ríkisendurskoðanda.

Samkvæmt ársreikningi ársins 2016 var bókfært virði stöðugleikaframlagseigna í umsjón Lindarhvols í upphafi rúmlega 162 milljarðar. Hluturinn í Klakka var því aðeins lítill hluti heildareigna sem félagið hafði yfirumsjón með að selja. 

Lindarhvoll ehf. var stofnað til þess að annast um­sýslu, fulln­ustu …
Lindarhvoll ehf. var stofnað til þess að annast um­sýslu, fulln­ustu og sölu á eign­um rík­is­sjóðs. Mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert