Dæmdur í 8 ára fangelsi vegna skotárásar í Grafarholti

mbl.is/Þorsteinn

24 ára karlmaður, Hrannar Fossberg Viðarsson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að hafa skotið mann og konu á bílaplani með skammbyssu þann 10. febrúar 2022 við Þórðarsveig í Grafarholti. Einnig er Hrannari gert að greiða fólkinu miskabætur.

Konan, sem er tvítug, hlýtur rúmar 3,3 milljónir króna í bætur auk vaxta en manninum voru dæmdar 1,2 milljónir kr. í bætur auk vaxta. Hann er 25 ára. 

Hrannar hafði þegar áður játað á sig vopnalagabrot og stórfellda líkamsárás en hafnað því að hann hafi ætlað að drepa manninn og konuna. Konan var fyrrum kærasta mannsins og fékk hún lífshættulegt skot í kviðinn en maðurinn fékk skot í lærið. Hrannar var í 30-40 metra fjarlægð frá fórnarlömbunum í farþegasæti bíls þegar hann hleypti af skotunum. 

Við aðalmeðferð sagði Hrannar m.a.: „Þá hefði ég bara tæmt hylkið,“ sér til málsbóta og vildi með því meina að hann hafi ekki ætlað að drepa fólkið. 

Notaði 22 kalibera byssu 

Við aðalmeðferð þóttu málsatvik skýr í megindráttum. Þannig skaut Hrannar mann sem hann kallaði „óvin“ sinn til 8 ára á bílaplani við Þórðarsveig í Grafarholti. Hrannar hafði lagt bíl sínum fyrir framan heimili konunnar, sem er fyrrverandi kærusta hans, á milli 3-4 um nóttina. Var bíllinn kyrrstæður í bílastæði þegar inn á planið kom 25 ára gamall maður í leigubíl sem hinn Hrannar sagðist hafa átt í útistöðum við um nokkra hríð en maðurinn sem skotinn var kannaðist ekki við þann ágreining. Fórnarlambið var þarna komið til að hitta fyrrverandi kærustu hins ákærða. Tók hún á móti honum við bílinn. 

Hrannar kallaði til fyrrverandi kærustu sinnar. Þar sem skuggsýnt var úti sáu þau ekki hver það var sem kallaði og hóf maðurinn úr leigubílnum göngu í átt að bílnum. Eftir nokkra metra gang skaut hinn ákærði tveimur skotum af  tæplega 40 metra færi úr farþegasæti bílsins. Hann hæfði konuna sem er tvítug í kviðinn og manninn í lærið. Konan þurfti á bráðaaðgerð að halda og var í lífshættu um tíma að sögn læknis sem kom fyrir dóminn. 

Fyrir dómi sagði Hrannar að árásin hafi beinst af manninum en konan hafi óvart verið skotin. Hrannar sagði að þeir hafi verið í sitthvorum vinahópnum og að átök hafi átt sér stað á milli hópanna. 

Hrannar sagði aðspurður í aðalmeðferð að hann hefði ákveðið að kaupa byssuna í kjölfar Rauðagerðismálsins svokallaða þar sem maður var myrtur fyrir utan heimili sitt með skotvopni. 

mbl.is