Einn kom seint en loks tókst að ljúka þingfestingu

Þingfestingu í Bankastræti Club svokallaða er lokið.
Þingfestingu í Bankastræti Club svokallaða er lokið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lokahnykkur þingfestingar í svokölluðu Bankastræti Club-máli fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur undir hádegið. Þrír áttu eftir að taka afstöðu til ákærunnar. Höfðu tveir neitað sök í gegnum fjarfundabúnað en hvergi bólaði á þriðja manninum sem hafði ætlað að mæta fyrir dóminn.

Dómarinn fékk afsökunarbeiðni frá sakborningnum í gegnum verjanda sinn og réttinum var tilkynnt um að maðurinn væri í Hafnarfirði. Við tók bið í allnokkra stund með stuttum viðkomum verjandans sem upplýsti réttinn um að sífellt styttist í manninn. 

Var það mál manna við réttinn að varla væri á það bætandi að lengja þingfestingu enn frekar. 

Að lokum mætti maðurinn um 40 mínútum eftir að þingfesting hófst. Hann neitaði sök og hafnaði bótakröfu.

Allir þrír sakborninganna segjast hafa verið á efri hæð Bankastræti Club og því ekki staddir á hæðinni þar sem árásin fór fram. 

Að því loknu lauk þingfestingu sem hófst fyrir þremur dögum síðan. Hafa þar með allir 25 sakborningar tekið afstöðu til sakargifta.  

mbl.is