Játar nú að hafa slegið barnsmóður með exi

Maðurinn veittist að konunni með exi.
Maðurinn veittist að konunni með exi.

Karlmaður sem réðst á barnsmóður sína með exi fyrir utan Dalskóla í Úlfarsárdal breytti afstöðu sinni til sakargifta og játar nú að hafa ráðist á konuna og slegið hana með eggvopninu.

Maðurinn neitar hins vegar að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps og hafnar því sem fram kemur í ákæru að hann hafi ítrekað beitt vopninu á meðan árásinni stóð. Segist hann hafa slegið hana einu sinni. Þá játar maðurinn að hafa eyðilagt bíl konunnar en hann hafði áður sagst eiga bílinn. 

Geðlæknir hefur metið manninn ósakhæfan en dómarans er að ákveða hvort tekið verði tillit til þess við refsingu. Maðurinn dvelur á réttargeðdeild. 

Þetta kom fram í fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag

Var að sækja börnin í skólann

Maðurinn er rúmlega fimmtugur og var ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa ítrekað ráðist að fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður með exi við Dalskóla í Úlfarsárdal í lok nóvember.

Samkvæmt ákæru er maðurinn sagður hafa slegið konuna með öxi sem var með 12 cm blaði í höfuðið og hent henni í jörðina og í framhaldinu átt í átökum við hana uns konan náði að koma sér í burtu og leita skjóls í skólanum.

Eftir að árásin átti sér stað kom fram að konan hefði verið að sækja börn sín í skólann, en foreldrar, börn og starfsfólk varð vitni að árásinni. Sendi skólastjóri Dalskóla foreldrum barna við skólann bréf í kjölfarið þar sem tekið var fram að það snerti tvö börn við skólann.

Eyðilagði bifreiðina

Er maðurinn sagður hafa ógnað lífi konunnar, heilsu og velferð með athæfi sínu, en konan hlaut opið sár á höfði, brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum og sár og mar víða á handleggjum, fótleggjum, öxl og andliti.

Maðurinn er í öðrum lið ákærunnar ákærður fyrir að hafa beitt öxinni á bifreið konunnar og valdið skemmdum þannig að bifreiðin eyðilagðist.

Maðurinn hefur dvalið á réttar- og öryggisgeðdeild eftir að árásin átti sér stað.

Auk þess sem saksóknari fer fram á að manninum verði gerð refsing, þá fer konan fram á 4,5 milljónir í miska- og skaðabætur vegna árásarinnar og 2 milljónir vegna munatjóns.

Lögregla sagði við mbl.is í byrjun desember að konan væri á batavegi eftir árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert