Vonandi vísbending um topp verðbólgunnar

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verðbólg­a á árs­grund­velli er kom­in niður fyr­ir 10% og mæl­ist nú 9,8% til samburðar við 10,2% í síðasta mánuði.

Bjarni Benediktsson segir að það sé best að halda aftur af sér með miklar yfirlýsingar en segir út af fyrir sig þróunina jákvæða og vonandi vísbendingu um að verðbólga hafi náð hámarki.

„Við höfum séð miklar vaxtahækkanir frá Seðlabankanum. Ríkisfjármálin á þessu ári eru að styðja við lægri verðbólgu sem við sjáum á mjög mikilli breytingu á afkomu ríkissjóðs. Við ætlum áfram að grípa til ráðstafana sem munu stuðla að því að verðlag lækkar.“

Bjarni segir það vera talsvert verkefni, þegar menn hafa misst stjórn á verðbólguvæntingum inn í framtíðina, að byggja aftur undir trú á því að við getum fengist við þetta verkefni og náð árangri. Hann segir stjórnvöld mjög einbeitt í því að gera einmitt það.

Fjármálaáætlun vinni með aðgerðum Seðlabankans

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að væntingar sínar og vonir standi auðvitað til þess að verðbólgutoppnum sé náð en hún segir að það breyti hins vegar ekki stöðunni eins og hún er í dag og vísar þar til hárrar verðbólgu og vaxta í þeim hæðum sem við höfum séð frá því í síðustu viku.

„Í þeirri stöðu skiptir augljóslega máli að fjármálaáætlun vinni með aðgerðum Seðlabankans til að ná verðbólgunni hraðar niður.

Við þurfum að viðhalda fullri aðgát gagnvart þessu verkefni og ég ítreka það að þetta liggur að sjálfsögðu hjá Seðlabankanum og stjórnvöldum en þetta liggur auðvitað líka hjá vinnumarkaðnum og ekki síður hjá fyrirtækjunum út á markaði.“

Lykilatriði að okkur miði áfram

Hún ítrekar fyrri orð sín um að það skipti máli þegar fyrirtæki eru sum hver að stíga fram og lækka verð og hvetur önnur til að gera slíkt hið sama því allt skipti máli í að ná árangri.

Aðspurð um yfirlýsingar einhverra aðila vinnumarkaðarins um að all­ar for­send­ur kjara­samn­inga séu brostn­ar segir Katrín að ákveðið hafi verið að fara í skammtímasamninga vegna óvissunnar í efnahagslífinu og hún segist telja það hafa verið skynsamlegt skref.

„Hins vegar er það algjört lykilatriði að okkur miði áfram í því að ná verðbólgunni niður áður en næsta samningalota hefst sem er bara í lok þessa árs.

Það skiptir auðvitað gríðarlegu máli fyrir samfélagið að við getum náð hérna langtímasamningum sem tryggja velsæld allra landsmanna og þá skiptir máli að þessi mál séu undir styrkri stjórn,“ segir Katrín.

Hefurðu áhyggjur af yfirlýsingum þess efnis að slíta eigi öllum viðræðum um næstu samninga í ljósi stöðu efnahagsmála?

„Næstu mánuðir munu skipta sköpum með það, það er bara þannig,“ segir Katrín.

Mikilvægasta verkefnið í dag

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tekur í sama streng og bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra.

„Við teljum mikilvægast nú að fjármálaáætlun styðji við markmið og peningastefnu Seðlabankans og það er mikilvægasta verkefnið í dag bæði efnahagslega og samfélagslega,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is