Reyndist of seint um morguninn

Frá Neskaupstað eftir að fyrstu snjóflóðin höfðu fallið.
Frá Neskaupstað eftir að fyrstu snjóflóðin höfðu fallið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á samráðsfundi snjóflóðasérfræðinga Veðurstofu Íslands, sunnudaginn 26. mars, var staðan metin þannig að snjóflóð gætu fallið á Austurlandi, en ekki talið að þau myndu ógna byggð.

Meta þyrfti aðstæður aftur um morguninn. Það reyndist of seint, því snjóflóð féllu í byggð snemma að morgni mánudagsins 27. mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Varað var við aukinni hættu á snjóflóðum á Austfjörðum á Facebook-síðu Veðurstofu að kvöldi sunnudags. Engin formleg tilkynning var þó send út á fjölmiðla, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í gær.

Þrjú snjóflóð féllu í og við byggð í Neskaupstað þennan dag.

Að minnsta kosti tíu slösuðust og þykir mildi að ekki hafi farið verr.

Stundum gripið til samfélagsmiðla

Í tilkynningunni bendir Veðurstofan á að hún gefi út svæðisbundna snjóflóðaspá sem gildi um stór svæði, sem gagnist til dæmis fólki sem ferðast um í fjalllendi og þeim sem þurfa að meta hættu á snjóflóðum fyrir til dæmis vegi eða skíðasvæði.

„Slík snjóflóðaspá er birt á vef Veðurstofunnar og stundum er gripið til þess að vekja athygli á henni með almennum fréttum og á samfélagsmiðlum Veðurstofunnar,“ segir í tilkynningunni, sem heldur svo áfram: „Í aðdraganda hrinunnar var svæðisbundna snjóflóðaspáin á rauðum lit (mikil hætta) fyrir Austfirði og var athygli vakin á þeirri spá á facebooksíðu Veðurstofunnar. Það er hinsvegar mikilvægt að átta sig á því að spá um svæðisbundna snjóflóðahættu til fjalla þarf ekki að vera lýsandi fyrir staðbundna snjóflóðahættu í byggð þótt hún geti verið það. Fer slíkt eftir aðstæðum hverju sinni“.

Snjóflóðahætta geti verið til staðar til fjalla, þótt ekki sé búist við stórum flóðum sem nái niður í byggð.

„Eins geta komið upp aðstæður þar sem snjóalög eru óstöðug og mikil hætta á að ferðamenn setji flóð af stað en lítil hætta á flóðum af náttúrulegum orsökum á meðan veður er stöðugt.“

Snjóflóðin ollu miklu tjóni á íbúðarhúsnæði og bifreiðum. Mildi þykir …
Snjóflóðin ollu miklu tjóni á íbúðarhúsnæði og bifreiðum. Mildi þykir að ekki fór enn verr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segja aðstæður hafa verið óvenjulegar

Í tilkynningu Veðurstofu segir að snjóflóðasérfræðingar meti það sem svo að þær aðstæður sem sköpuðust í aðdraganda fyrstu snjóflóðanna í Neskaupstað í þessari hrinu hafi verið afar óvenjulegar. 

„Það byrjaði að snjóa rétt fyrir miðnætti og fyrstu snjóflóðin féllu ekki nema 6 til 8 klukkustundum eftir það sem er óvenjulegt. Líklega hafa sérstakar aðstæður með frosti og lausamjöll orðið til þess að fyrstu flóðin sem fóru af stað fóru jafn langt og voru jafn kraftmikil og raun bar vitni á mánudag,“ segir í tilkynningunni.

Rýmt eftir að snjóflóðin féllu

Tekið er fram að þegar varað sé við snjóflóðahættu í þéttbýli sé slíkt gert með formlegum hætti. 

„Þegar talin er hætta á snjóflóðum í byggð og ástæða til að lýsa yfir óvissustigi eða grípa til rýminga hefur Veðurstofan samband við almannavarnir eftir formlegum leiðum. Embætti lögreglustjóra á viðkomandi stað kemur síðan upplýsingum til íbúa og rýmir hús á tilgreindum svæðum eða reitum samkvæmt rýmingaráætlunum ef metin er þörf á slíku.“

Ekki var ráðist í rýmingar fyrr en eftir að snjóflóðin féllu á byggðina í Neskaupstað.

Voru rýmingarnar þær umfangsmestu sem gripið hefur verið til í þessum bæjum á Austfjörðum frá árinu 1995.

Snjóflóðahrina er sömuleiðis sú umfangsmesta í Neskaupstað síðan árið 1974. Þá létust tólf manns er snjóflóð lentu á byggð.

mbl.is