Vettvangur afhentur lögreglu

Brunavarnir Suðurnesja hafa nú afhent lögreglu vettvang brunans til rannsóknar. …
Brunavarnir Suðurnesja hafa nú afhent lögreglu vettvang brunans til rannsóknar. Fyrst þarf þó að dæla sjó upp úr skipinu sem slökkvilið dældi niður í það við starf sitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum búnir að afhenda lögreglu vettvanginn, það var klukkan fimm mínútur yfir tvö í dag,“ segir Herbert Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, í samtali við mbl.is um stöðu mála eftir mannskæðan bruna í netabátnum Grímsnesi GK-555 í nótt.

„Þá var þetta sem við vorum búnir að vera að berjast við, síðan við tókum við vettvanginum klukkan átta í morgun, búið. Það kom þarna upp eldur aftur í eldhúsinu sem var slökktur og nú er bara verið að dæla sjó upp úr skipinu sem við dældum inn í það við slökkvistarfið,“ útskýrir Herbert.

Fara eftirlitsferð í dag

Það er Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. sem hefur veg og vanda af dælingunni úr skipinu og telur Herbert rannsókn lögreglu um borð ekki hefjast að ráði fyrr en því verki ljúki. „Það er mikill sjór í lestinni og vélarrúminu, skipið er bara fullt af sjó,“ heldur varðstjórinn áfram og segir hlutverki Brunavarna Suðurnesja að mestu lokið.

„Við förum eftirlitsferð í dag og tékkum á þessu en annars er lögreglan komin með vettvanginn,“ segir Herbert Eyjólfsson að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert