Elta uppi kafbáta á Atlantshafi

Kafbátaleitaræfing Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Atlantshafi, Dynamic Mongoose, fer nú fram á hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs. Hófst æfingin 26. apríl sl. og lýkur á föstudag, eða 5. maí. Er um að ræða æfingu sem haldin hefur verið árlega frá árinu 2012 og fer hún að stórum hluta fram við Færeyjar.

Blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins og mbl.is var um síðastliðna helgi boðið um borð í dönsku freigátuna HDMS Niels Juel (F363) þar sem hún lá við bryggju í Þórshöfn í Færeyjum. Þaðan var haldið út á haf og stefnan sett á æfingasvæði NATO þar sem æfðar voru kafbátavarnir. 

Frá Niels Juel gafst Morgunblaðsmönnum einstakt tækifæri til að fylgjast með dönskum, þýskum og færeyskum skipverjum og flugmönnum vinna náið saman að því erfiða verkefni sem kafbátaleit er. Stjórnendur æfingarinnar líkja kafbátaleit gjarnan við hópíþrótt þar sem ólík vopnakerfi vinna saman sem ein heild. Allt þarf að ganga sem skyldi ef finna á kafbáta undir yfirborðinu.

Neyðarástand sett á svið

Þau skip sem æfðu saman þennan dag voru dönsku freigáturnar HDMS Niels Juel og HDMS Hvidbjørnen (F360), þýska freigátan Mecklenburg-Vorpommern (F218) og færeyska strandgæsluskipið Brimil. Skipunum til aðstoðar voru þyrlur af gerðinni MH-60R Seahawk og Sea Lynx Mk88. 

Morgunblaðsmenn fengu einnig innlit í aðgerðastjórn freigátunnar, sem er eitt mikilvægasta rými Niels Juel, en þaðan er vopnakerfum skipsins stjórnað. Ekki er heimilt að ganga inn í þetta rými nema skilja eftir öll snjalltæki fyrir utan. Ástæða þess er sú að hægt er að nýta snjalltæknina til að njósna um þá viðkvæmu starfsemi sem þarna fer fram.

Að auki var sett á svið neyðarástand um borð þar sem æfð voru viðbrögð við eldsvoða í einu af vélarrýmum skipsins. Stjórnlaus eldur þar getur auðveldlega valdið altjóni.  

Alls taka ellefu aðildarríki NATO þátt í Dynamic Mongoose, þ.e. herskip frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Noregi, Póllandi, Portúgal og Spáni. Þá tekur Landhelgisgæsla Íslands þátt fyrir Íslands hönd.

Hluti herskipanna er væntanlegur til hafnar í Reykjavík.

Mun ítarlegri umfjöllun í bæði máli og myndum verður um kafbátaleitaræfingu NATO í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert