Lögreglan mátti ekki setja á ótímabundið barnabann

Mikið sjónarspil í Merardölum í ágúst í fyrra. Um viku …
Mikið sjónarspil í Merardölum í ágúst í fyrra. Um viku eftir að gosið hófst bannaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum börnum að ganga að gosstöðvunum. mbl.is/Hákon Pálsson

Lögreglustjóranum á Suðurnesjum var ekki heimilt að setja á ótímabundið bann við því að börn færu að gosstöðvunum í Meradölum í ágúst í fyrra án þess að finna banninu annan lagagrundvöll í lengri tíma. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Þann 10. ágúst í fyrra tilkynnti lögreglustjórinn um bannið, en þar kom fram að foreldrum með börn yngri en 12 ára yrði snúið frá leið A að gosstöðvunum af öryggisástæðum að svo stöddu. „Börn hafa minna þol gagn­vart loft­meng­un og eru skil­greind sem viðkvæm­ur hóp­ur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji leng­ur en 15 mín­út­ur á stað þar sem loft­meng­un er yfir heilsu­vernd­ar­mörk­um,“ sagði í tilkynningunni á sínum tíma.

Nóttina áður hafði björgunarsveitarfólk staðið í ströngu við að bæta öryggi á gönguleiðinni með því að fjölga stikum, en á svæðinu hafði verið snarvitlaust veður og svartaþoka og nánast ekkert skyggni. Gos hafði hafist í Meradölum 3. ágúst og stóð það í 18 daga.

Umboðsmaður óskaði strax svara

Strax daginn eftir að lögreglustjórinn kynnti bannið óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum og skýringum frá lögreglustjóranum vegna ákvörðunarinnar um barnabannið. Var meðal annars óskað eftir því að skýrt væri nánar á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin væri reist og hvaða gögn og upplýsingar, eða röksemdir, hefði legið til grundvallar þessu mati. Einnig vildi umboðsmaður vita hvort ákvörðuninni hefði verið markaður sérstakur gildistími og hvernig átti að kynna ákvörðunina.

Rík krafa um skýrleika þegar grundvallarréttindi eru skert

Í áliti umboðsmanns, sem birt var í dag, kemur fram að í gildi séu almennar reglur um ferðafrelsi en einnig heimild í lögum um almannavarnir til að takmarka slíkt frelsi. Minnir umboðsmaður á að íþyngjandi ráðstafanir stjórnvalda verði almennt að eiga sér stoð í lögum og þegar þær skerði grundvallarréttindi sem varin séu af stjórnarskrá og mannréttindum beri að gera ríkari kröfu en ella til skýrleika lagaheimildar.

Kemur fram að barnabanninu hafi ekki verið markaður sérstakur gildistími og því hafi það, í ljósi þess tíma sem leið frá því að  tilkynnt var um það opinberlega þar til það var látið niður falla, ekki samræmst sjónarmiðum sem áttu við um heimild lögreglustjórans til að takmarka ferðafrelsi að gosstöðvum.

Mælist umboðsmaður til þess að lögreglustjórinn hafi sjónarmiðin í álitinu framvegis í huga, en fram kemur að lögreglustjórinn hafi svarað og sagt að sjónarmiðin yrðu eftirleiðis höfð í huga.

Álit umboðsmanns Alþingis

mbl.is