„Algjörlega fráleitt“ að tala um eignaupptöku

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir að lífsgæði íbúa í …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir að lífsgæði íbúa í skerjafirði muni aukast með nýju hverfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekki óalgengt og nánast regla að þegar við erum að kynna nýtt skipulag að það komi fram áhyggjur hjá þeim sem næst búa og vilja gjarnan hafa hlutina óbreytta. Að þeir hafi áhyggjur af umferð og ónæði á byggingartíma.”

Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur í samtali við mbl.is um þunga gagnrýni íbúa í Skerjafirði á fyrirhuguð áform um uppbyggingu nýrrar íbúðabyggðar, en til stendur að sexfalda byggðina í Skerjafirði á næstu árum.

Á fimmta þúsund manns munu búa í Skerjafirði þegar uppbyggingunni verður lokið og umferð um hverfið mun aukast stórkostlega, að mati umferðarverkfræðings. Bent hefur verið á að allt að 20.000 bílar muni eiga leið um Einarsnes á hverjum sólarhring og umferðaræðar inn í hverfið verði takmarkaðar með tilheyrandi töfum.

Dagur segir að áhyggjur fólks sem þessar séu algengar. „Það var farið býsna vel yfir þessa þætti. Þetta er auðvitað frábært byggingarland og mjög góð staðsetning fyrir nýjar íbúðir. Þarna er í raun land sem lengi hefur staðið til að byggja á.“

Hann segir að umferðargreiningar sýni að þegar hverfið verði fullbyggt verði umferð svipuð og umferð um Birkimel sem sé gata í íbúðabyggð og umferð um hana sé ekki þung.

Vandað til verka

„Okkur finnst skipta mjög miklu máli að þarna byggist upp gott hverfi. Það hefur verið vandað til verka í hverju og einu skrefi,“ segir Dagur. 

Borgarstjóri segir að skipulag nýs Skerjafjarðar sé eina dæmið sem hann viti um sem hafi fengið verðlaun bæði innanlands og utan fyrir skipulag og hönnun. Húsagerðirnar verði fjölbreyttari en í mörgum nýjum hverfum sem verið er að byggja upp.

„Bæði sérbýli og hús með góðum hæðum eins og við þekkjum í Hlíðunum, í Vesturbænum og víðar.“

Svona er áætlað að ásynd hins nýja Skerjafkarðar verði.
Svona er áætlað að ásynd hins nýja Skerjafkarðar verði. Mynd/Reykjavíkurborg,

Mikil vinna hefur verið lögð í að útfæra göturými í nýja hverfinu og meta áhrif veðra og vinda á byggðina. „Ég er mjög spenntur yfir því að sjá hverfið rísa,“ segir Dagur.

Borgarstjóri segir að það skipti miklu máli að svara eftirspurn eftir nýju húsnæði. „Þetta er eitt af stærstu svæðunum sem er tilbúið í skipulagi og þess vegna er mikilvægt að það verði ekki frekari dráttur á uppbyggingunni. Við teljum að þetta verði einstakt hverfi og algjörlega frábær staður til að búa á og að gamli Skerjafjörðurinn verði það líka.“

Nýrri byggð mun fylgja nýr leikskóli og grunnskóli og segir Dagur að eldri byggð muni njóta þess. „Það mun fylgja þjónusta sem stærra hverfi getur staðið undir. Þó svo að ég átti mig á því að sumt af þessu fólki sem er að mótmæla er ekki á barnseignaraldri þá má búast við að nýi hluti hverfisins muni draga að sér barnafólk, hlátrarsköll og líf í göturnar.“

Áhrif á innanlandsflug metin

Bent hefur verið á að aðstæður til flugs á Reykjavíkurflugvelli muni versna með tilkomu hinnar nýju byggðar, m.a. í nýlegri skýrslu innviðaráðherra þar sem kemur fram að fella þurfi niður flug í hverjum mánuði vegna breyttra aðstæðna.

„Þetta getur haft áhrif á eina lendingu af 45.000 í mánuði á þann hátt að það þurfi að láta flugmenn vita af því að vindátt geti valdið hviðum. Þetta eru miklu minni áhrif en margir höfðu óttast.“ 

Dagur segir að með hliðsjón af því hversu margar flugferðir séu felldar niður reglulega þá séu áhrifin af hinni nýju byggð mjög óveruleg.

„Við höfum gripið til mótvægisaðgerða í skipulaginu þannig að byggðin er mjög lág næst flugvellinum og við settum inn ákvæði í deiliskipulagið á dögunum til að tryggja að það verði hugað að því við hönnun bygginga og staðsetningar gróðurs þannig að það dragi úr vindáhrifum á flugvöllinn. Við erum kannski að ganga miklu lengra varðandi þessa þætti þegar þetta deiliskipulag er annars vegar heldur en þegar þyrluskýli Landhelgisgæslunnar var byggt á dögunum.“

Mun lægja í Skerjafirði og Vatnsmýrinni

Engar sambærilegar athuganir hafi verið gerðar þó svo að ljóst sé að mest áhrif varðandi hviður á flugvellinum séu af flugskýlum sem standi næst vellinum.

„Rannsóknir sýna að þau valda langmestum neikvæðum áhrifum. En þó er það ekki þannig að mér af vitandi hafi einhver hafi lagt til að þau verði rifin. Áhrifin af byggðinni eru miklu minni. Annars vegar mun draga úr meðalvindi, það mun lægja í Vatnsmýrinni og Skerjafirðinum.“

Borgarstjóri segir að vindhviður sem nú þekkist á Reykjavíkurflugvelli úr mjög sjaldgæfum áttum verði fátíðari en áður sem séu tilkomnar vegna núverandi flugskýla á vellinum.

Borgarstjóri segir að veður muni lægja í Vatnsmýri og Skerjafirði …
Borgarstjóri segir að veður muni lægja í Vatnsmýri og Skerjafirði með tilkomu nýrrar byggðar. Mynd/rReykjavíkurborg

Betra hverfi

Prýðifélagið Skjöldur, sem íbúar í Skerjafirði standa að, hefur mótmælt nýrri byggð og sagt að hún jafngildi eignaupptöku þeirra sem búa nú þegar í Skerjafirði.

„Það er algjörlega fráleitt því að hverfið verður betra,“ segir Dagur og undirstrikar að það verði betra verði að búa í Skerjafirði en áður þegar þar verði komin skólaþjónusta og verslun og eftirvænting sé til staðar um uppbyggingu hverfisins.

„Við verðum vör við það að það sé mjög mikið af fólki, bæði í Reykjavík og nágrannsveitarfélögunum, sem er að bíða eftir þessum spennandi búsetukosti. Ég held að þetta hverfi verði mjög eftirsótt og að gamli Skerjafjörðurinn muni njóta góðs af því.“

Framundan eru jarðvegsframkvæmdir í Skerjafirðinum og mat á mögulegum mótvægisaðgerðum í samstarfi við ISAVIA um möguleg áhrif nýrrar byggðar á innanlandsflugið. „Ég vonast til þess að þetta muni allt ganga fljótt og vel.“

mbl.is