Frestar opnun á veitingastað vegna verkfallsins

Sigrún Skaftadóttir heima með börnunum sínum.
Sigrún Skaftadóttir heima með börnunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur mjög mikil áhrif. Ég er að stofna veitingastað og þetta seinkar öllu hjá mér. Ég get ekki opnað þegar ég vil opna. Ég kemst ekki yfir allt sem ég þarf að gera á daginn.

Þetta segir Sigrún Skaftadóttir, móðir tveggja barna, plötusnúður og frumkvöðull, um áhrif verkfalls BSRB á fjölskyldu sína. 

Eins og greint hef­ur verið frá slitnaði upp úr kjaraviðræðum BSRB og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga í Karp­hús­inu á öðrum tím­an­um í nótt án niður­stöðu. Hófust því víðtæk­ar verk­fallsaðgerðir BSRB í dag í 29 sveit­ar­fé­lög­um sem hefur áhrif á rekstur um 70 leiksóla og þar með áhrif á fjölskyldur um allt land. 

Tvöfalt vandamál

Sigrún býr í Kópavogi en að hennar sögn er leikskólinn í hverfinu hennar aðeins opinn tvær klukkustundir á dag og börnin því heima stærsta hluta dagsins. 

„Það var opið í tvo tíma í dag. Þannig að sex ára barnið fékk að fara í tvo tíma en yngra barnið sem er eins og hálfs árs er ekki komið inn á leikskóla svo þetta er tvöfalt vandamál.“

Hún tekur fram að nú vinni hún að því að opna nýtt veitingahús í Kópavogi. Virðist sem svo að hún neyðist til að fresta opnuninni þar sem erfitt sé að sinna nauðsynlegum verkefnum með bæði börnin heima. 

Slæmt fyrir þá sem hafa ekki bakland

Hún bendir þó á að lukkulega er hún með ágætt bakland og að hún eigi góða foreldra sem geta tekið að sér að passa börnin þegar mikið er að gera. Hún segir að því miður séu ekki allir svo heppnir og að verkfallið hafi töluvert verri afleiðingar fyrir aðra foreldra sem hún þekkir.

„Ég á foreldra sem eru hættir að vinna og með heilsu til að hugsa um börnin mín. Það er skelfilegt að hugsa sér fólk sem á ekkert bakland. Við þekkjum eitt þannig par, hann er frá Úkraínu og hún er frá Tékklandi og annað þeirra þarf bara að taka sér frí endalaust.“

Minnir á kórónuveirufaraldurinn

Hún segir stemminguna minna mikið á tímana í kringum kórónuveirufaraldurinn þar sem börnin voru mikið heima og ítrekar að þetta hafi áhrif jafnt á foreldra sem og börn.

„Ég var að spjalla við deildarstjórann á leikskólanum og hún sagði að börnin væru öll orðin svo tætt. Þau vita ekkert hvenær þau eiga að mæta og síðan eru þau bara í tvo tíma. Maður fær svona kórónuveirufaraldurs „flash back“. Það var ekki frábær tími.“

Stendur með leikskólakennurum

Að hennar sögn væri það frábært ef aðilar gætu samið í vikunni og segir hún ábyrgðina liggja hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

„Ég skil kröfur BSRB. Ef maður skoðar meðallaunin í landinu þá er þetta mjög undir því og manni finnst það sjálfsagt að borga þetta út.

Ég er bara með tvö börn hérna heima og það er alveg nóg. Ég gæti ekki unnið þessa vinnu. Þetta fólk vann allt á meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði og eru þetta þakkirnar sem það fær?“

mbl.is