Spara milljónir með því að hækka ekki laun

Ungmenni mættu til starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar án …
Ungmenni mættu til starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar án þess að vita hver laun þeirra yrðu. mbl.is/Árni Sæberg

Ef laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur hefðu verið uppfærð miðað við launavísitölu Hagstofu Íslands fyrir sumarið hefði launakostnaður Reykjavíkurborgar aukist um 29.799.099 krónur fyrir sumarið.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn mbl.is.

Eins og áður hefur verið greint frá haldast laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur óbreytt frá því á síðasta ári þegar þau voru hækkuð um sjö prósent. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og áheyrnafulltrúar Flokk fólksins og Vinstri grænna lögðu öll fram bókun á fundi borgarráðs vegna þessa.

Færri nemendur í vinnuskólanum

Í skriflegu svari frá Guðmundi B. Friðrikssyni, skrifstofustjóra skrifstofu umhverfisgæða, við fyrirspurn mbl.is kemur fram að fjöldi nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur í ár sé svipaður miðað við fjöldann á síðasta ári. Alls eru 3.059 nemendur skráðir í vinnuskólann eins og stendur en á síðasta ári voru 3.181 nemendur skráðir.

Á síðasta ári voru 1.259 nemendur úr áttunda bekk, 1.109 úr níunda bekk og 813 úr tíunda bekk skráð í vinnuskólann. Nú eru 1.268 nemendur úr áttunda bekk, 1.066 úr níunda bekk og 725 úr tíunda bekk skráð í vinnuskólann. Eru því 122 færri nemendur í vinnuskólanum þetta sumarið.

280 milljóna kostnaður

Launavísitala Hagstofu Íslands var 856,7 í júní á síðasta ári en var í apríl 933,9 sem nemur níu prósent hækkun. Tíma­kaup nem­enda í 8.bekk er 711 kr., nem­end­ur í 9.bekk fá 947 kr. á tím­ann og þeir í 10. bekk fá 1.184 kr.

Ef laun hefðu verið hækkuð miðað við launavísitölu hefði launakostnaður fyrir alla nemendur í vinnuskólanum samtals orðið 310.936.921 krónur en launakostnaður vegna vinnuskólans í sumar með óbreytt laun verður 281.137.822 krónur, miðað við útreikning Reykjavíkurborgar. Mismunur þessa er 29.799.099 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka