Verulegar áhyggjur af hljóðmengun

„Við höfum sannarlega fengið kvartanir frá Kópavogsbúum og höfum verulegar áhyggjur af þessu,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs spurð hvort kvartanir hafi borist vegna ónæðis sem skapast hefur með auknu útsýnisflugi þyrlna í kjölfar eldgossins við Litla-Hrút.

Umfang þyrluflugs hefur aukist verulega frá því eldgos hófst við Litla-Hrút og hefur það haft áhrif á íbúa í grennd við flugleiðina. Ýmist hafa borist kvartanir frá íbúum í Kópavogi og Reykjavík og í kjölfar þess skapast umræða sem miðar að því að fundinn verði nýr þyrluflugvöllur eða þyrlusvæði.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Sigurður Bogi

Kvartanir íbúa vegna hljóðmengunar voru teknar fyrir á fundi bæjarráðs Kópavogs í gær og segir Ásdís að ákveðið hafi verið að gera hljóðmælingar í Kópavogi. „Við teljum að hljóðmælingar muni leiða í ljós að hljóðmengun fari yfir leyfileg mörk,“ segir hún og bætir við að hljóðmengunin hafi sérstaklega áhrif á Kársnesið.

Í framhaldinu áætlar Ásdís að taka málið upp á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, enda snerti málið öll nærliggjandi sveitarfélög.

Óraunhæfur möguleiki

„Þetta er gríðarleg hljóðmengun. Það skiptir öllu máli að finna staðsetningu sem hentar bæði Kópavogi og nærliggjandi sveitarfélögum svo að hljóðmengun sé sem minnst og helst engin,“ segir Ásdís, spurð hvernig henni lítist á aðrar þær staðsetningar sem nefndar hafa verið, svo sem Hólmsheiði og Sandskeiðsflugvöll.

Hún gefur þó lítið fyrir nefnda staði og segir aðalskipulag bæjarins endurspegla stefnu hans hvað Sandskeiðsflugvöll varðar, og telur völlinn því óraunhæfan möguleika.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert