Krefjast frávísunar í hryðjuverkamáli öðru sinni

Áfram verður tekist á um hryðjuverkamálið svokallaða fyrir dómstólum.
Áfram verður tekist á um hryðjuverkamálið svokallaða fyrir dómstólum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs Birgissonar, lagði fram frávísunarkröfu í hryðjuverkamáli gegn þeim Sindra Snæ og Ísidórs Nathanssonar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Nær frávísunarkrafan að málinu í heild sinni. Bæði gagnvart hryðjuverkahluta ákærunnar sem og vopnalagahluta ákærunnar.

Ítarleg greinagerð

Við fyrirtöku málsins í dag lagði Sveinn Andri fram ítarlega greinagerð. Dómari mat málið sem svo að sérstakur málflutningur skuli fara fram um formhlið málsins og þá hvort ástæða sé til þess að vísa málinu frá.

Eins og fram hefur komið voru lagðar fram nýjar ákærur á hendur Sindra Snæ og Ísidóri en þegar hefur hryðjuverkahluta málsins var vísað frá einu sinni.

Bókuð fyrirtaka verður 20. september vegna formhliðar málsins en fyrirtaka í málinu sjálfu þann 14. september. 

Ákæruvaldið hefur lagt fram lista um 30 vitna í málinu. Eru bæði lögreglumenn á honum sem og þeir sem þekkja til Sindra og Ísidórs.

Sveinn Andri Sveinsson og Karl Ingi Vilbergsson þegar málið var …
Sveinn Andri Sveinsson og Karl Ingi Vilbergsson þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskýrleiki ákæru

Sveinn Andri segir frávísunarkröfuna að hluta til byggjast á sömu forsendum og fyrri frávísunarkrafa.

„Óskýrleiki ákærunnar er mikill og úrbæturnar sem hafa verið gerðar duga ekki til,“ segir Sveinn Andri. Eins er sérstök krafa sem snýr að öflun skotfæra. Lítur hann svo á að þegar sé búið að kæra fyrir vopnalagabrotshluta ákærunnar.

„Það byggir á meginreglu um bann við tvöfaldri refsimeðferð,“ segir Sveinn Andri.

Að þessu sinni var það eingöngu Sveinn Andri, sem lögmaður Sindra, sem lagði fram frávísunarkröfu. En það kom fram við fyrirtökuna að von sé á sambærilegri kröfu fyrir hönd Ísidórs.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjóst ekki við frávísunarkröfu á málinu í heild

Spurður hvort þessi krafa hafi komið á óvart segir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, að svo hafi verið að hluta til.

„Ég átti von á einhvers konar frávísunarkröfu en ekki kröfu um að öllu málinu væri vísað frá í heild sinni,“ segir Karl Ingi.

Hann segist sammála því að ganga frá formhlið málsins fyrst áður en farið er í aðalmeðferð.

„Það er langbest að vera ekki að eyða púðri í skýrslutökur og annað ef málinu er svo vísað frá á seinni stigum,“ segir Karl Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert