Föst í vítahring verðbólgu, vaxta og húsnæðisvanda

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það skipta öllu …
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það skipta öllu máli að við snúum bökum saman í baráttunni við verðbólguna og hátt vaxtastig. Samsett mynd/aðsend

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir stóra verkefnið fram undan vera að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynnti ákvörðun sína um óbreytta stýrivexti í morgun.

Ólíðandi bæði fyrir fyrirtæki og fólk

„Við þurfum að stilla saman strengi og eiga mjög hreinskiptið samtal um það með hvaða hætti við getum brotist út úr þessum vítahring.“

Sigríður segir í samtali við mbl.is að Samtök atvinnulífsins fagni því að stýrivextir séu ekki að hækka en á sama tíma segir hún það blasa við að langstærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir sé verðbólgan og hátt vaxtastig.

„Það er ólíðandi bæði fyrir fyrirtæki og fólk að við séum hér með 8% verðbólgu og stýrivexti sem eru 9,25%. Við vonum að þetta sé toppurinn á þessu hækkunarferli stýrivaxta en það er verk að vinna.“

Skiptir öllu að við snúum bökum saman

Hún segir það segja sig sjálft að kjaraviðræðurnar komi til með að skipta mjög miklu máli þegar kemur að því að ná tökum á verðbólgunni.

„Ef við gerum kjarasamninga sem ekki er innistæða fyrir, þá erum við einfaldlega að fara að fóðra verðbólguna. Til þess að ná verðbólgu niður þurfum við öll að taka ábyrgð.

Við erum föst í vítahring verðbólgu, vaxta og húsnæðisvanda og það skiptir öllu máli að við snúum bökum saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert