Óbreyttir stýrivextir Seðlabankans

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Stýrivextirnir höfðu fram að þessu verið hækkaðir 14 sinnum í röð. 

„Á heildina litið hefur þróun efnahagsmála verið í samræmi við mat nefndarinnar á síðasta fundi. Verðbólga hefur aukist á ný og mældist 8% í september. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig en undirliggjandi verðbólga hefur hjaðnað lítillega. Vísbendingar eru um að heldur hafi dregið úr tíðni verðhækkana og að þær séu ekki á eins breiðum grunni og áður. Þótt verðbólguvæntingar séu áfram of háar hafa þær lækkað á suma mælikvarða,” segir í tilkynningunni.

Fram kemur að hagvöxtur hafi mælst 5,8% á fyrri hluta ársins en að hann hafi verið ríflega 7% í fyrra. Nokkuð hafi því hægt á vexti efnahagsumsvifa. Vísbendingar séu um að hægt hafi enn frekar á eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins. Spenna sé aftur á móti nokkur á vinnumarkaði og í þjóðarbúskanum. Raunvextir bankans hafi hins vegar hækkað það sem af er ári og áhrif vaxtahækkana bankans séu farin að koma fram í meira mæli.

„Á þessum tímapunkti er nokkur óvissa um efnahagsframvinduna og hvort núverandi taumhald sé nægjanlegt. Nefndin hefur því ákveðið að staldra við en á næsta fundi mun liggja fyrir ný þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,” segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK