Samfylkingin mælist með rúmlega 29% fylgi

Samfylkingin mælist með 29,1% fylgi og myndi hljóta 21 þingmann …
Samfylkingin mælist með 29,1% fylgi og myndi hljóta 21 þingmann samkvæmt könnuninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfylkingin mælist áfram stærsti flokkur landsins og myndi fá jafn marga þingmenn og ríkisstjórnarflokkarnir til samans ef gengið yrði til kosninga í dag. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup.

RÚV greinir frá.

Ríkisstjórnin mælist með 34% fylgi sem er 20 prósentustigum minna en í síðustu Alþingiskosningum.

Vinstri grænir mælast með 6% fylgi

Samfylkingin mælist með 29,1% fylgi og myndi hljóta 21 þingmann samkvæmt könnuninni.

Athygli vekur að fylgi Sjálfstæðisflokksins breytist ekkert á milli mánaða þrátt fyrir afsögn Bjarna Benediktssonar sem fjármálaráðherra og mælist flokkurinn með 20,5% fylgi. Myndi flokkurinn hljóta 14 þingmenn, en í síðustu kosningum voru 16 kjörnir á þing fyrir flokkinn.

Píratar mælast með 10,2% fylgi og myndu fá sex menn kjörna á þing. Miðflokkurinn mælist með 8,6% fylgi og Viðreisn með 7,5%. Báðir flokkar myndu fá fimm þingmenn hvor um sig kjörna. Framsókn mælist með 7,4% fylgi og myndi fá fjóra menn kjörna.

Flokkur fólksins mælist með 6,5% fylgi og Vinstri grænir með 6%. Flokkur fólksins myndi þó fá einum þingmanni fleiri en Vinstri grænir, eða fjóra menn kjörna.

Fylgið var kannað 2. til 31. október og rúmlega 10 þúsund manns voru í úrtakinu. Svarhlutfall var 49,8%

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert