Gríðarlega flókið ef Svartsengi fellur út

Guðrún Hafsteinsdóttir og Svartsengi.
Guðrún Hafsteinsdóttir og Svartsengi. Samsett mynd

Stjórnvöld eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að undirbúa sig fyrir mögulegt eldgos.

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, spurð að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun út í ummæli sviðsstjóra HS Veitna á íbúafundi í Grindavík í gærkvöldi. Þar hvatti hann almannavarnir til að grípa til frekari aðgerða til að fyrirbyggja hættu gagnvart íbúum. Guðrún var einmitt á meðal gesta fundarins.

Gætu þurft að brenna jarðefnaeldsneyti

Hún segir kvikusöfnun núna vera á vondum stað nálægt Þorbirni, skammt frá mikilvægum innviðum. Áður hafi verið landris og kvikusöfnun á þessu svæði sem hafi hjaðnað og eldgos síðan orðið á „hentugri“ stað eins og í nálægð við Fagradalsfjall. Stjórnvöld vonist vitaskuld til að það gerist aftur núna, að kvikan leiti sér annars farvegs.

Virkjunin í Svartsengi.
Virkjunin í Svartsengi. mbl.is/Hákon

„Hins vegar getum við ekki leyft okkur annað en að horfa á allar mögulegar sviðsmyndir og það erum við að gera. Við erum að horfa til hugsanlega verstu sviðsmyndar ef [virkjunin] Svartsengi og starfsemi hennar fellur út. Hvernig við komum bæði vatni, heitu vatni og rafmagni til íbúa Grindavíkur og sömuleiðis á Reykjanesi öllu. Ef það gerist verður það gríðarlega flókið og umfangsmikið verkefni,” bendir Guðrún á.

„Við erum að horfa til þess, og það kom fram á fundinum, að það væri hægt að koma upp kötlum. Þá yrðum við að brenna jarðefnaeldsneyti í þó nokkuð langan tíma. Sömuleiðis ef jörðin myndi leyfa okkur það þá væri hægt að leggja rafmagnsstreng úr Reykjanesvirkjun yfir í Svartsengi og yfir til Grindavíkur,” bætir hún við.

Bláa lónið er staðsett við Svartsengi.
Bláa lónið er staðsett við Svartsengi. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðherrann tekur einnig fram að fyrirtækin á svæðinu, þar á meðal Bláa lónið, séu að vinna sína vinnu líka og séu tilbúin með rýmingaráætlanir. Einnig sé Grindavíkurbær tilbúinn með slíkar áætlanir sem megi finna á heimsíðu hans.

Fólk viti hvar vatnsinntakið er

Guðrún bendir á að Íslendingar búi í landi náttúruhamfara og að við þeim megi búast alls staðar á landinu. Því hvetur hún landsmenn til að fara yfir sín heimili, hafa símana hlaðna, vasaljós tiltæk og vita hvar skuli skrúfa fyrir vatnsinntak ef vatnslagnir færu í sundur.

„Þetta eigum við í rauninni alltaf að vera að gera með reglubundnum hætti og ég ætla að hvetja fólk hvar sem er á landinu til þess að gera það því að í landi eins og þessu þá erum við öll almannavarnir. Við getum gert svo margt sjálf til þess að minnka þann skaða sem hugsanlega getur orðið.”

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Alin upp á jarðskjálftasvæði

Spurð segist Guðrún ekki hafa fundið fyrir jarðskjálftunum að undanförnu, þar á meðal þeim sem varð á íbúafundinum í Grindavík, upp á 2,3.

„Ég er alin upp á miklu jarðskjálftasvæði og ég þekki það mjög vel að vera í svona stöðu þegar það koma svona jarðskjálftatímabil. Það verður þreytandi til lengdar og getur skapað vissa hræðslu. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að ræða við börnin sín. Ef eitthvað kemur upp á er gott að vera búinn að ræða við þau,” segir hún.

Þreyta í Grindvíkingum

Guðrún segir jafnframt gott að halda fleiri en færri íbúafundi eins og þann sem var haldinn í Grindavík í gærkvöldi til að halda öllum upplýstum.

Guðrún Hafsteinsdóttir var á meðal gesta á íbúafundinum í Grindavík …
Guðrún Hafsteinsdóttir var á meðal gesta á íbúafundinum í Grindavík í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnst þér vera óróleiki í Grindvíkingum eftir að hafa setið íbúafundinn?

Já, en það er líka ákveðin þreyta. Þetta er að verða búið að vera nánast stöðugt ástand núna í þrjú ár. Nú er mikil jarðskjálftahrina í gangi sem vitaskuld fólk verður þreytt yfir. Eins og í nótt þegar það kemur svona stór skjálfti þá hrekkur fólk upp og heldur að það sé upphafið að jafnvel eldgosi. En við vitum ekki hvað er að fara að gerast nákvæmlega,” svarar Guðrún og bendir á að búið sé að lýsa yfir óvissustigi en ekki hættustigi. Þess vegna megi ferðamenn enn vera á svæðinu, að mati vísindamanna.

„Það er búið að vinna gríðarlega mikla vinnu, bæði hjá fyrirtækjunum, sem og sveitarfélögunum og svo almannavörnum. Nú er það okkar hlutverk að samræma þetta allt saman þannig að allir gangi í takt og allir viti hvert hlutverk þeirra er ef eitthvað gerist,” segir hún einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert