Ævintýralegur kostnaður af tvöföldu kerfi

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir fátt annað í stöðunni en …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir fátt annað í stöðunni en að fylgjast vel með. mbl.is/samsett mynd

Sigurður Ingi Jóhannson innviðaráðherra segir það sem fyrst og fremst sé hægt að gera í tengslum við mögulega eldvirkni nálægt Svartsengi sé að vakta ástandið vel.

„Við erum auðvitað með frábært teymi bæði almannavarna og jarðvísindamanna til að fylgjast með. Það er nú fyrst og fremst það sem við getum gert,“ segir Sigurður Ingi, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Ekki hægt að vita hvar færi að gjósa

Sigurður Ingi segir óvissuna um það hvar eldgos gæti komið upp setja stórt strik í reikninginn. Enginn geti vitað það fyrirfram. Til þess að hægt sé að reisa varnargarða þurfi að hafa staðsetningar á hreinu.

„Ef við reisum varnargarð og eldgosið verður síðan hinum megin við hann þá munu margir spyrja hvað við höfum verið að gera.“ 

Hann segir það eina í stöðunni að fylgjast eins vel með og vera eins vel undirbúin og hægt er. „Við getum einfaldlega ekki í mörgum tilfellum gert betur.“

Síðan fyrsta gosið á skaganum hófst, segir Sigurður Ingi markvissa skráningu hafa átt sér stað á innviðum og því sem gæti ógnað þeim. Ólíkar sviðsmyndir hafi verið skoðaðar og viðbrögð við þeim. Sú vinna hafi gengið ágætlega.

Áskoranir úti um allt land

Í gær var fjallað um mögulegan flutning díselvéla á svæðið ef ske kynni að innviðir yrðu fyrir skaða. Sigurður Ingi segir Landsnet eiga fjöldann allan af díselvélum en virðist þó ekki telja að koma þyrfti upp öðru raforkukerfi á svæðinu.

„Út um allt land eru einhverjar áskoranir. Ef við værum alltaf með tvöföld eða þreföld kerfi þá væri kostnaður okkar á degi hverjum ævintýralegur. Og svo gerist ef til vill ekki neitt,“ segir ráðherrann.

Hann segir það eina sem hægt sé að gera vera að huga að undirbúningi og skjótum viðbrögðum. Mikilvægt sé að vera eins klár og hægt er. „Náttúruna ráðum við ekki við.“

Sigurður Ingi segir jafnframt einhverjar vísbendingar um að það sama sé að gerast og í síðustu fjögur skiptin sem landris hefur orðið á svæðinu, þ.e. að virknin hætti. „Við erum alltaf að vonast eftir að það verði nákvæmlega það sem gerist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert