Diljá spyr þingið út í mál Eddu

Diljá Mist Einarsdóttir sendi fyrirspurn til Alþingis.
Diljá Mist Einarsdóttir sendi fyrirspurn til Alþingis. Samsett mynd

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lagði fram fyrirspurn á Alþingi í kjölfar handtöku Eddu Bjarkar Arnardóttur sem handtekin var í gær vegna framsalsbeiðni norskra yfirvalda. 

Í henni spyr Diljá Mist meðal annars hversu oft íslenskir ríkisborgarar hafi verið handteknir frá byrjun árs 2016 og afhentir öðru ríki á grundvelli handtökuskipunar vegna fyrirhugaðra réttarhalda.

Þá spyr hún í hversu mörgum þessara tilfella hafi dagsetning réttarhalda ekki legið fyrir. Fram kom í máli Eddu á Facebook að hún hafi sjálf haft hug á því að vera viðstödd réttarhöldin en ekki er komin dagsetning á þau. 

Allt að sex ára fangelsi

Þrátt fyrir að það segi ekki berum orðum er ljóst að Diljá er að vísa til máls Eddu Bjarkar en hennar bíður dómsmál í Noregi fyrir að nema þrjá drengi sína á brott þaðan og fara með til Íslands. Verði hún fundin sek í Noregi eru viðurlögin allt að sex ára fangelsi.

Íslenskur barnsfaðir sem búsettur er í Noregi fékk dæmt fullt forræði yfir drengjunum samkvæmt norskum dómstól. 

Fyrirspurn Diljár Mistar:

     1.      Hversu oft hafa íslenskir ríkisborgarar verið handteknir frá byrjun árs 2016 og afhentir öðru ríki á grundvelli handtökuskipunar vegna fyrirhugaðra réttarhalda? Í hversu mörgum þessara tilfella lá dagsetning réttarhalda ekki fyrir? Svar óskast sundurliðað eftir ríkjum, þeim afbrotum sem viðkomandi aðilar voru grunaðir um og eftir því hvort dagsetning réttarhalda lá fyrir eða ekki.
     2.      Hefur ríkissaksóknari frestað afhendingu íslenskra ríkisborgara? Svar óskast sundurliðað eftir ástæðum og eftir ríkjum og afbrotum sem lágu til grundvallar.
     3.      Hefur afhending íslenskra ríkisborgara verið tímabundin samkvæmt umsömdum skilyrðum? Svar óskast sundurliðað eftir skilyrðum og eftir ríkjum og afbrotum sem lágu til grundvallar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka