Fátítt ef ekki bara óheyrt

Diljá Mist Einarsdóttir sendi fyrirspurn til dómsmálaráðherra.
Diljá Mist Einarsdóttir sendi fyrirspurn til dómsmálaráðherra. Samsett mynd

„Eftir óformlegri eftirgrennslan þá skilst mér að það sé fátítt, ef að það er ekki bara óheyrt,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um mál Eddu Bjarkar Arnardóttur sem var framseld til yf­ir­valda í Nor­egi á föstudag án þess búið væri að ákveða dagsetningu fyrir réttarhöld yfir henni.

Edda Björk var úrskurðuð í 30 daga gæsluvarðhald í gær og er í haldi í fangelsi í Skien í Telemark. Hún stendur í forræðisdeilu við barnsföður sinn.

Diljá Mist lagði fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra í kjölfar umfjöllunar um málið, áður en dómsmálaráðuneytið birti tilkynningu þess efnis að ráðuneytið hefði enga heimild til að beita sér í málinu.

Umdeild breyting 

„Ég fór að skoða þessi lög og fór að velta fyrir mér fordæmum í slíkum málum – hvort það væri ekki örugglega verið að afgreiða svipuð mál með svipuðum hætti,“ segir hún og bætir við að í vikunni muni hún leggja fram fyrirspurn vegna handtöku og afhendingu til Íslands. 

„Þessi lagabreyting er gerð árið 2016 og þá erum við í rauninni að innleiða samning – við vorum með svona samning í tengslum við Norðurlöndin og vorum að útvíkka hann til Evrópulandanna. Þetta var svakalega umdeilt að það væru svona víðtækar heimildir til að afhenda íslenska ríkisborgara,“ segir Diljá og bætir við að áhugavert verði að vita hvernig Íslendingar hafi nýtt sér heimildina. 

„Það verður merkilegt að sjá svarið. Þegar að verið er að afhenda íslenska ríkisborgara – sem ég geri ráð fyrir að sé ekki oft – hvort og þá hvaða skilyrðum það er bundið. Og hvort að það séu mörg tilvik þar sem að verið er afhenda ótímabundið, bara út í algjöra óvissu um tímalengd.“

Mikilvægt að gæta meðalhófs

Diljá furðar sig á „offorsinu“ í ljósi þess að það eigi eftir að fara fram málsmeðferð í málinu.

Telurðu að þetta mál gæti leitt til þess að lögin yrðu endurskoðuð?

„Það er kannski erfitt að segja það fyrr en við fáum betri mynd af framkvæmdinni. Eins og manni sýnist þetta mál vera vaxið, þá held ég að ég sé ekki sú eina sem að furða mig á meðferð þessa máls. Að þarna sitji íslenskur ríkisborgari í strangast mögulega gæsluvarðhaldi innan um fólk sem hefur verið handtekið og grunað meðal annars um morð.“ 

Diljá segir mikilvægt að gæta meðalhófs og jafnræði og því leggi hún fyrirspurnina fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert