Hægt að vera forseti án þess að vera jakkafataklæddur

Tómas Logi Hallgrímsson, rafvirki og björgunarsveitarmaður býður sig fram til …
Tómas Logi Hallgrímsson, rafvirki og björgunarsveitarmaður býður sig fram til forseta. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er búinn að hugsa um þetta í mörg ár og er búin að vera með yfirlýsingar um það að ég ætlaði að gera þetta um leið og ég hefði aldur til,“ segir Tómas Logi Hallgrímsson, 37 ára gamall rafvirki sem hyggst gefa kost á sér í komandi forsetakosningum.

Meðfram rafvirkjastörfum sínum hefur Tómas Logi sinnt björgunarstörfum með björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði í um nítján ár. Tómas er búsettur í Reykjanesbæ ásamt eiginkonu sinni átta ára syni og fjögurra ára tvíburum og yrði því mikið fjör á Bessastöðum hlyti hann kjör.

Sinnir framboðinu meðfram vinnunni 

Í samtali við mbl.is kveðst hann hafa farið að viðra hugmyndina um framboðið við vini og vandamenn nýlega. Hann hafi fengið óvenju jákvæð viðbrögð og því ákveðið að slá til.

„Ég ætla að reyna að sanna það fyrir þjóðinni að venjulegur maður getur gert þetta líka, þó þú sért kannski ekki með fjárhagslegt bakland. Ég til dæmis hef ekki efni á því að mæta ekki í vinnuna mína og þarf að gera þetta meðfram vinnu,“ segir Tómas Logi. 

Tómas Logi ásamt fjölskyldu sinni.
Tómas Logi ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Facebook

Rafvirki eigi alveg jafn mikið erindi á Bessastaði

Aðspurður kveðst hann með því ekki vera að setja út á fyrri forseta, enda haldi hann engu fram um að vera betri maður en annar. Honum þyki rafvirki engu að síður eiga alveg jafn mikið erindi á Bessastaði og hver annar. 

„Það er alveg hægt að sinna þessu embætti með virðingu þó þú sért ekki í jakkafötum á hverjum degi.“

Spurður hvort hann sjái fram á gott gengi segir hann það ekki sitt að meta það, það sé aðeins hans að sýna hvaða mann hann hafi að bera og koma til dyranna eins og hann er klæddur. Restin sé í höndum fólksins enda sé það nú þannig sem lýðræðið virki.

„Það eru eflaust allir sem bjóða sig fram jafn góðir og ég. Ég ætla ekki að segja að ég sé betri en einhver annar“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert