„Þarna er ekki gott að fólk búi“

Þrátt fyrir að langflest húsin í Grindavík séu óskemmd þá verður á brattann að sækja að búa í Grindavík uns núverandi atburðarás hættir. 

Þetta segir Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, í sam­tali við mbl.is um hvort skynsamlegt sé að byggja aftur upp byggð í Grindavík. 

Meðfylgjandi drónamyndskeið var tekið í Grindavík í dag, en tökumaðurinn er Hörður Kristleifsson. 

Búseta í Grindavík ekki verjandi við núverandi aðstæður

„Langflest húsin í Grindavík eru óskemmd, en hins vegar hafa orðið miklar skemmdir á lögnum og annað þannig að það er hvorki hægt að vera með heitt vatn eða kalt í lagi. Svo er bærinn hættulegur vegna þess að þarna hafa myndast sprungur þannig að þarna er ekki gott að fólk búi og ekki verjandi við núverandi aðstæður,“ segir Magnús og útskýrir að sprungurnar inni í bænum hafi líklega gliðnað um einn metra í viðbót í þessum atburði.  

Hann segir það þó vel mega vera að hægst sé að bjarga stærri hluta bæjarins með því að halda áfram að byggja varnargarða. Það sé hins vegar ljóst að þá yrði að ganga þannig frá að bærinn sé þokkalega öruggur og að garðarnir virki. 

Magnús segir búsetu í Grindavík ekki verjandi við núverandi aðstæður.
Magnús segir búsetu í Grindavík ekki verjandi við núverandi aðstæður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skynsamlegt að verja Grindavík eins og hægt er 

„Við sjáum að það geta komið upp sprungur mjög nálægt bænum, þó það séu ekki miklar líkur. Það sem kom upp núna er mjög lítið miðað við hina, en það breytir ekki því að þetta eru bara ákveðnar hættu þannig að ef fólk fer þarna aftur þá þarf það að vera tilbúið að rýma mjög hratt,“ segir hann og bætir við: 

„Upp á það að loka ekki dyrum til framtíðar þá er skynsamlegt að verja Grindavík eins og hægt er.“

Með því að verja Grindavík eins og hægt er sér Magnús fyrir sér að hægt verði að búa þar aftur. Ákvörðunin sé þó ákveðinn slagur sem þarf að taka, enda mikilvægt að passa upp á að fólk skaðist ekki. Þangað til sú ákvörðun verður tekin og yfirstandandi atburðarás yfirstaðin, segir Magnús á brattann að sækja að búa í Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert