Vilja öryggi og sjálfstæði

Bryndís Gunnlaugsdóttir uppskar mikil fagnaðarlæti þegar hún bar spurningar undir …
Bryndís Gunnlaugsdóttir uppskar mikil fagnaðarlæti þegar hún bar spurningar undir ráðamenn á íbúafundi Grindavíkur. mbl.is/Arnþór

„Ég fékk mikla hvatningu að mæta á þennan fund og ég lít þannig á að ég mætti fyrir hönd stórs hóps fólks – ekki bara fyrir mig.“

Þetta segir Bryndís Gunnlaugsdóttir, íbúi í Grindavík, í samtali við mbl.is.

Hún uppskar mikil fagnaðarlæti í kjölfar spurninga hennar til ráðamanna á íbúafundi Grindavíkur og risu flestir íbúar úr sætum og klöppuðu fyrir henni.

Vilja sjálfsákvörðunarrétt

Bryndís hefur tjáð sig með virkum hætti á samfélagsmiðlum um ástandið í Grindavík og upplifun sína af atburðarás síðustu mánaða.

Spurð hvers vegna íbúar hafi brugðist svona vel við spurningu hennar segir Bryndís sig telja hafa fangað tilfinningar margra Grindvíkinga.

„Við viljum vera sjálfstæð, við viljum fá sjálfsákvörðunarréttinn okkar aftur og fá öryggi til langs tíma.“ Hún segir Grindvíkinga vilja heimili en ekki hús með fjórum veggjum.

Hún segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði að taka mið af því að ástandið kunni að vara í nokkur ár eins og ýmsir jarðfræðingar hafa sagt.  

Bryndís segist skilja að ráðherrar þurfi tíma og svigrúm til að taka ákvarðanir um málið en lítur á heildarsamhengið.

„Almannavarnir eru búnar að vinna allan sólarhringinn til að tryggja öryggi Grindvíkinga, lögreglan er líka búin að því og björgunarsveitirnar eru búnar að taka fjögur eldgos.“

„Ég held að embættismenn, þingmenn og ráðherrar geti alveg unnið allan sólarhringinn í nokkrar vikur til að klára það sem þarf að klára til að bjarga okkur.“

Heyrir ekki af ósætti

Bryndís vill að farin verði leiðin sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Grindvíkingur, hefur lagt til um að ríkið kaupi fasteignir og íbúar hafi forkaupsrétt.

Hún bendir á að kostnaðurinn sem hlýst af ástandinu eins og það er núna sé mikill og að líta verði til langtímakostnaðar af núgildandi aðgerðum.

„Þegar fólk er að setja þessar tölur í samhengi verður það að átta sig á því hver langtímakostnaðurinn er ef 4.000 íbúar eru að fara að búa við óöryggi í einhver ár.“

Spurð hvort meirihluti Grindvíkinga sé sammála tillögu Vilhjálms segir Bryndís að svo sé.

„Ég hef ekki heyrt neinn sem er á móti þessari tillögu. Við sem viljum byggja upp Grindavík aftur viljum byggja upp Grindavík með fólki sem vill koma heim, ekki með fólki sem neyðist til að koma heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert