Erfitt að sjá að hægt sé að búa í Grindavík

Magnús Tumi ávarpaði íbúafund Grindvíkinga í Laugardalshöll.
Magnús Tumi ávarpaði íbúafund Grindvíkinga í Laugardalshöll. mbl.is/Arnþór

„Við verðum bara að reikna með því að þetta haldi áfram. Og ég ætla bara að segja það að við núverandi aðstæður þá er mjög erfitt að sjá [...] að það verði hægt að búa í Grindavík.“

Þetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, á íbúafundinum í Laugardalshöll.

„Það er alveg ljóst að kvikan – hún nær undir Grindavík og það er hún sem er að fylla þarna í. Hins vegar er miklu auðveldara fyrir hana að fara upp nær miðjunni, Sundhnúkum, og þess vegna er fjalllendið þar,“ sagði Magnús.

Svaraði hann þannig fyrirspurn íbúa um hvað sé að brjótast um undir Grindavík utan þess sem sýnilegt er á yfirborðinu.  

Hættulegt svæði sem er erfitt að tryggja

„Þetta var þannig í Sundhnúkagosinu fyrir tvö þúsund árum – þá kom lítil tunga, svipuð eins og kom núna rétt vestan við bæinn, og það er líklegt, og við erum bara við því búin að þetta geti verið svona,“ sagði Magnús og bætti við að þetta gæti haldið áfram í töluverðan tíma. 

Sagði hann varnargarðana auðvitað gera gagn en að ekki væri hægt að ráða við náttúruöflin og því sé alltaf hætta á að sprungur opnist inni í Grindavík.

„Þetta er bara svæði sem er mjög hættulegt og erfitt að tryggja það.“

Loks sagði hann það mikilvægt fyrir Grindvíkinga sem og stjórnvöld að búa sig undir það að finna lausnir, mögulega til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert