Sér ekki fyrir sér að Samfylkingin verji Svandísi

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að hann eigi erfitt með að sjá fyrir sér að Samfylkingin muni verja Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vantrausti.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag mun Flokkur fólksins leggja fram vantrauststillögu gegn Svandísi á mánudag er þing kemur aftur saman.

„Eins og ég hef áður sagt þá á ég mjög erfitt með að sjá fyrir mér að við í Samfylkingunni færum að sitja hjá eða verja ráðherra vantrausti því við vantreystum þessari ríkisstjórn í heild sinni,“ segir Jóhann.

Hann segir að þingflokkurinn muni funda á mánudag þar sem nánar verður farið yfir málið.

„Popp og kók fyrir okkur“

Ekki liggur fyrir hvort að Píratar og Viðreisn muni styðja vantrauststillöguna.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að ef tillagan fari til atkvæðagreiðslu þá verði væntanlega greidd atkvæði á þriðjudaginn. Spurður hvort að Píratar muni styðja tillöguna segir hann:

„Það kemur bara í ljós á þriðjudaginn. Það er gaman að hafa þetta spennandi,“ segir hann kíminn.

Björn telur að ríkisstjórnin muni verja Svandísi vantrausti.

„Þá verður rosalega mikil skemmtun að horfa á alla ríkisstjórnaraðilana – þingmennina með stóru orðin éta þau í sig. Þetta er verður bara popp og kók fyrir okkur,“ segir Björn.

Viðreisn fundar á morgun

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir í samtali við mbl.is að þingflokkur Viðreisnar muni funda á morgun og þar verður málið rætt.

„Þetta er alvarlegt mál. Viðbrögð stjórnarflokkanna voru á þann veg að ég á bara mjög erfitt með að trúa því að þau bregðist ekki við. En við [stjórnarandstaðan] eigum þá þessi tæki og tól – vantraustið,“ segir Hanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert