Ekki vegið að réttindum Vestmannaeyinga

Krafan er hluti af vinnu og framkvæmd óbyggðanefndar sem bundin …
Krafan er hluti af vinnu og framkvæmd óbyggðanefndar sem bundin er í lög. mbl.is/Óttar

Krafa íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ er hluti af vinnu og framkvæmd óbyggðanefndar frá aldamótum sem bundin er í lög.

Þetta segir Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, spurð út í þá gagnrýni sem krafan hefur sætt, en Þórdís Kolbrún lagði kröfuna fram fyrir hönd íslenska ríkisins.

Sjónarmið sem áður hafa komið fram 

„Á þessu stigi máls er ferlið og framkvæmdin eins og hún hefur verið í yfir 20 ár hjá óbyggðanefnd,“ segir Þórdís Kolbrún, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum fyrr í dag. 

Hún bætir við að í yfir tuttugu ár hafi komið upp staðbundin umræða þegar svæði eru tekin fyrir hvert fyrir sig. „Þannig að þau sjónarmið sem þarna koma fram hafa komið fram hjá bændum og landeigendum í meira en tuttugu ár,“ greinir hún frá. 

Tekur afstöðu þegar málið er á hennar borði

Þórdís Kolbrún segir ferlið einfaldlega þannig á þessum tímapunkti að allir þeir sem kunna að eiga önd­verðra hags­muna að gæta og gera kröfu þess efnis sitji við sama borð. Pólitísk afskipti af hennar hálfu á þessu stigi væru þannig ómálefnaleg gagnvart öðrum sem eru að gera kröfu í tiltekið land.

Kveðst ráðherrann því taka afstöðu í málinu þegar hefðbundnu ferli óbyggðanefndar er lokið og málið er komið á hennar borð.

„Það er ekkert í þessu sem ég er að taka sjálfstæða ákvörðun í, þetta byggir á lögum og framkvæmd sem hefur verið við lýði frá um það bil aldamótum.“

Framkvæmdin reglulega sætt gagnrýni 

Er verið að sóa tíma og fjármunum með því að leggja fram þessa kröfu?

„Þessi vinna og framkvæmd óbyggðanefndar frá aldamótum hefur mjög reglulega sætt mjög mikilli gagnrýni og það eru mjög mismunandi sjónarmið um það bæði hvernig löggjöfin og framkvæmdin hefur verið og niðurstaða innan kerfisins. Þetta þekkja bændur og landeigendur mjög víða um land og nú er þessu verkefni brátt lokið. Bráðum verður búið að taka í raun öll svæði á landinu fyrir í þessu ferli," svarar hún.

Þórdís Kolbrún áréttir að málið sé ekki komið á hennar borð. Nú sé það hjá óbyggðanefnd sem kallar eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Hún segir mikilvægt að þessir einstaklingar fái að fara í gegnum sitt ferli og fái tækifæri til þess.

Í framhaldinu tekur óbyggðanefnd afstöðu og síðar er tekin ákvörðun um hvað gerist í framhaldinu, segir Þórdís Kolbrún. 

Mál sem þarf að fara sína leið

Hvers vegna er nauðsynlegt að leggja fram þessa kröfu?

„Það er verið að vinna eftir löggjöf sem hefur verið í gildi frá aldamótum og sú framkvæmd sem hefur verið byggt á. Nánast öll önnur landsvæði á landinu hafa þegar farið í gegnum þetta ferli.“

Spurð hvort vegið sé að réttindum Vestmanneyinga með því að leggja fram kröfuna svarar Þórdís Kolbrún því til að löggjöfin hafi aldrei verið óumdeild.

„Satt að segja hefur löggjöfin verið mjög umdeild og mörg erfið og snúin mál komið upp sem aðilar hafa þurft að fara í gegnum. Ólíkir stjórnmálaflokkar hafa haft ólíkar skoðanir á því og kemur kannski ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hefur almennt verið eignarréttarmegin,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við:

„Þetta er það ferli sem hefur viðgengist í allan þennan tíma og þarf einfaldlega að fara sína leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert