Sagði 700 grömm af kókaíni ætluð eigin neyslu

Verðmæti efnisins á innlendum fíkniefnamarkaði er talið vera yfir 10 …
Verðmæti efnisins á innlendum fíkniefnamarkaði er talið vera yfir 10 milljónir króna samkvæmt lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður var dæmdur til 16 mánaða fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjaness í gær fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á tæplega 700 grömmum af kókaíni ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. 

Maðurinn, Ilja Lescovs, játaði að hafa staðið að innflutningnum en sagði efnin ætluð til eigin neyslu, að því er kemur fram í dóminum. 

Óútskýrðir fjármunir á bankareikningi 

Maðurinn kom til Íslands í janúar með flugi frá Barcelona í Spáni. Á Keflavíkurflugvelli fundust 250 grömm af kókaíni í nærbuxum mannsins við líkamsleit og strax í kjölfarið kvaðst hann vera með 500 grömm innvortis. 

Við rannsókn málsins afritaði lögregla gögn úr farsíma ákærða og skoðaði bankaviðskipti hans. 

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í farsímagögnum fannst ekkert tengt innflutningi nefndra fíkniefna en við rannsókn á fjárhagsgögnum kom í ljós að óskýrðir fjármunir tengdir bankaviðskiptum hans hefðu verið 2.443.668 krónur. 

Meðal óskýrðra viðskipta var einnar milljónar króna reiðufjárinnlögn á eigin reikning og kaup hans strax í kjölfarið á evrum upp á tæpa eina milljón íslenskra króna. 

Skráðar tekjur mannsins hér á landi voru 775 þúsund króna greiðsla frá Félagsþjónustu Kópavogs og 320 þúsund krónur frá einkahlutafélögum. Þá fékk hann einnig tæpar 200 þúsund krónur í fjárhagsstuðning frá Reykjavíkurborg.

Efnin átt að duga í eitt til tvö ár

Við yfirheyrslur var maðurinn fremur tregur til svars. Hann kvaðst vera í daglegri neyslu og sagði efnin hafa átt að duga til eigin neyslu hér á landi í eitt til tvö ár og væri þau bæði ódýrari og í meiri gæðum á Spáni en hér á landi. 

Hann vildi lítið tjá sig um óútskýrða fjármuni á bankareikningi sínum en kvaðst hafa unnið ólöglega hér á landi. Hann kvaðst hvorki muna eftir milljón króna innlögn né að hafa keypt evrur fyrir sömu upphæð. 

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Hákon

Frumburður mannsins ótrúverðugur

Fyrir dóm kom lögreglufulltrúi sem stýrði rannsókn málsins. Sá taldi útilokað að svo mikið magn af kókaíni væri til eigin nota og nefndi að verðmæti þess á innlendum fíkniefnamarkaði væri yfir 10 milljón króna. 

Álit dómsins var að framburður mannsins í heild hefði verið ótrúverðugur enda hefði hann verið reikull í frásögn og ólíkindablær verið yfir ýmsu í frásögn hans.

Þegar litið er til þess mikla magns af kókaíni sem hann flutti til landsins og þess að hann hafði hvorki fastan samastað né atvinnu á Íslandi við komu til landsins þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að umrætt magn fíkniefna hafi verið flutt inn og ætlað til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, eins og ákært var fyrir í málinu, að því er kemur fram í dóminum. 

Maðurinn var dæmdur í 16 mánaða fangelsi. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 15. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert