Haraldur Þór réttir Sylvíu Karen keflið

Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Sylvía Karen …
Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Sylvía Karen Hemisdóttir, sveitarstjóri hreppsins. Ljósmynd/Aðsend

Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, lagði fram tillögu á sveitarstjórnarfundi í gær um nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og óskaði jafnframt eftir því að fjármálastjóri sveitarfélagsins, Sylvía Karen Heimisdóttir, tæki við starfi sveitarstjóra frá og með deginum í gær og út kjörtímabilið.

Síðustu tvö ár hefur Haraldur sinnt bæði starfi oddvita og sveitarstjóra í sveitarfélaginu og á þessum tveimur árum hefur náðst mikill árangur í rekstri sveitarfélagsins hvað varðar skuldahlutfall sveitarfélagsins, stafræn mál og fleira, að því er segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu Haralds

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða nýtt skipurit og staðfesti ráðningu Sylvíu Karen Heimisdóttur sem sveitarstjóra. Sylvía Karen ber þá ábyrgð á daglegum rekstri sveitarfélagsins. Hún hefur starfað hjá sveitarfélaginu frá sumrinu 2020 og sinnti meðal annars starfi sveitarstjóra frá 2021-2022.

Tekið er fram í tilkynningunni að Haraldur muni áfram starfa sem oddviti í fullu starfi. Hann muni bera ábyrgð á því að leiða þá uppbyggingu sem sé fram undan í sveitarfélaginu.

Í samþykktri fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir fjárfestingum á næstu tveimur árum fyrir 1,4 milljarð króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert