Úthlutuðu 102,4 milljónum

Tilkynnt var um úthlutun úr Barnamenningarsjóði á sunnudaginn í Safnahúsinu.
Tilkynnt var um úthlutun úr Barnamenningarsjóði á sunnudaginn í Safnahúsinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Barnamenningarsjóður Íslands hefur veitt 41 verkefni styrki samtals að upphæð 102,4 milljónum króna.

Alls hefur þeim borist 117 umsóknir og sótt var um 383 milljónir króna að þessu sinni, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Úthlutunin fyrir árið 2024 var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu á degi barnsins, sunnudaginn 26. maí.

Hæsti styrkurinn er 11,5 milljónir

Hæsti styrkurinn er 11,5 milljónir en Reykjavíkurborg í samstarfi við Akureyrar- og Ísafjarðarbæ fær hann fyrir leikskólaverkefnið. Það verkefni byggir á samstarfi leik- og tónlistarskóla í öllum þremur sveitarfélögunum.

Næsthæsti styrkurinn er 6 milljónir en Vestfjarðarstofa hlýtur hann fyrir barnamenningahátíð Vestfjarða, Púkann 2025.

„Blómlegt fram undan í barnamenningu"

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðný Hilmarsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs, ávörpuðu gesti og greindu frá úthlutun.

„Það er blómlegt fram undan í barnamenningu og gleður mig ósegjanlega mikið að sjá hversu margar umsóknir bárust,“ sagði Lilja. 

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður árið 2018 í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Hlutverk hans er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert