Segir B-listann eiga að líta sér nær

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur sent frá sér tilkynningu vegna yfirlýsingar B-listans í Reykjavík fyrr í dag um Sundabraut. Þar var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, gagnrýndur fyrir að segja í blaðaviðtali að framkvæmdum við Sundabraut sé sjálfhætt í bili vegna stöðu efnahagsmála.

Tilkynning sjálfstæðismanna er eftirfarandi:

  Það er dapurlegt þegar frambjóðendur kjósa að rangtúlka orð og ummæli pólitískra andstæðinga í leit sinni að athygli. Þannig fór fyrir B-listanum þegar hann sendi út fréttatilkynningu vegna ummæla Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna spurningar Svavars Hávarðssonar blaðamanns Fréttablaðsins „Telur þú að fresta eigi lagningu Sundabrautar og byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss vegna þenslu í þjóðfélaginu?“

  Það liggur alveg ljóst fyrir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hafa stutt lagningu Sundabrautarinnar og byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins. Vilhjálmur hefur ítrekað hvatt til þess að Sundabrautin verði byggð sem allra fyrst í einum áfanga alla leið upp á Kjalarnes.

  Meðal annars vegna seinagangs R-listans við skipulagslegan undirbúning málsins hafa framkvæmdir við þetta mikilvæga samgöngumannvirki frestast í langan tíma. Staðsetning Sundabrautarinnar hefur enn ekki verið ákveðin og því ekki hægt að hefja þá verkferla, s.s. verkhönnun og útboð, sem nauðsynlegir eru til að byrja framkvæmdir. Samkvæmt Vegagerðinni og framkvæmdasviði borgarinnar tekur hönnun Sundabrautarinnar að minnsta kosti eitt og hálft til tvö ár. Þetta var kjarninn í svari Vilhjálms.

  Nú er komið yfir miðjan apríl 2006 og ljóst að framkvæmdir við Sundabrautina hefjast varla úr því sem komið er fyrr en síðla árs 2008 eða 2009. Svar Vilhjálms við spurningu fréttamannsins var á þá leið að lagningu Sundabrautar væri því sjálffrestað til þess tíma.

  Það er Framsóknarflokkurinn sem ber megin ábyrgð á þessum silagangi ásamt meðreiðarflokkum fyrrum R-listans.

  Það ánægjulega í ályktun X-B er að þar virðast frambjóðendur hans á flótta undan fortíð R-listans í Sundabrautarmálinu. Fortíð sem fáir geta verið stoltir af.

mbl.is