Rétt nýting Framkvæmdasjóðs gæti eytt biðlistum

Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is
Dagur B. Eggertsson segir að ef ekki væri fyrir undanskot ríkisins á þeim skatti sem safnast í Framkvæmdasjóð aldraðra, eins og hann kemst að orði, væri hægt að eyða biðlistum eftir plássi á hjúkrunarheimilum aldraðra.

"Þessi sjóður er fyrst og fremst stofnaður til að fjármagna byggingu dagvista og stofnana fyrir aldraðra, en stjórnvöld hafa nýtt sér klausu í lögum um sjóðinn, klipið af eignum hans og varið til annarra hluta," segir Dagur.

Framkvæmdasjóður aldraðra starfar í dag samkvæmt lögum um málefni aldraðra frá 1999 og er fjármagnaður með nefskatti sem árið 2006 nemur 6.075 kr. og leggst á alla sem fæddir eru 1936 eða síðar og hafa tekjustofn hærri en 900.732.

Dagur segir það hafa viðgengist í fimmtán ár að veita fjármagn úr sjóðnum til annarra verkefna en byggingarverkefna og nefnir að í fjárlögum þessa árs sé aðeins 58% af þeim sköttum sem greiddir eru í sjóðin varið til uppbyggingar hjúkrunarheimila. Öðrum eignum sjóðsins er varið í ýmsan rekstur á velferðarþjónustu aldraða, en Dagur telur óeðlilegt að slík þjónusta sé ekki fjármögnuð með sama hætti og annar rekstur velferðarkerfisins.

"Kjarni málsins er að Íslendingar hafa verið að greiða sérstakan skatt til sérstakra framkvæmda og flestir væntanlega gert það með glöðu geði enda mikilvægt mál. Ríkisstjórnin hefur hins vegar notað peningana í aðra hluti," segir Dagur. "Einu tilvikin þar sem sérstakur nefskattur getur verið réttlætanlegur er í stórum málum þar sem átaks er þörf, enda nefskattur ekki til þess fallinn að dreifa skattbyrðinni á sanngjarnan hátt. Þess vegna er ólíðandi að þegar verið er að innheimta sérskatta af þessu tagi séu þeir notaðir í eitthvað allt annað.

Ef þeir peningar sem færðir hafa verið til annarra mála hefðu runnið í það sem Framkvæmdasjóðnum var upphaflega ætlað að sinna væri í dag enginn að bíða eftir að komast að á hjúkrunarheimili enda hægt að byggja öll þau 400 rými sem nú vantar."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert