Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið

mbl.is/Kristinn

Fylgi Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs er jafnmikið, eða 21,2%, samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 39,1%, Framsóknarflokksins 10%, Frjálslynda flokksins 5,7%, Íslandshreyfingarinnar 2,3% og Baráttusamtakanna 0,6%.

Miðað við niðurstöðu könnunarinnar fengi Sjálfstæðisflokkurinn 26 þingmenn, bætti við sig fjórum, Samfylking fengi 14 þingmenn, tapaði 6, VG fengi 14 þingmenn, bætti við sig 9 mönnum, Framsóknarflokkur fær 6 þingmenn, tapar 6 og Frjálslyndi flokkurinn fengi þrjá þingmenn, tapaði einum.

Könnunin var gerð dagana 17. til 23. apríl. Úrtakið var 1225 manns og svarhlutfall 62,4%. Afstöðu tóku 82,3%, 8,1% voru óákveðin og 7,9% neituðu að svara. 1,7% sögðust ætla að skila auðu.

Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu? Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhver hinna flokkanna?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert