Ingibjörg Sólrún: Þurfum öfluga starfsstjórn

Fréttamenn ræða við Ingibjörgu Sólrúnu í þinghúsinu í dag.
Fréttamenn ræða við Ingibjörgu Sólrúnu í þinghúsinu í dag. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir það einarða skoðun Samfylkingarinnar að það þurfi að vera öflug starfsstjórn í landinu sem nýtur trausts til að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Því þurfi að finna traustan og trúverðugan einstakling til þess að leiða stjórnina. Ingibjörg og Geir H. Haarde sitja nú á fundi í Alþingishúsinu.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur verið rætt um það innan Samfylkingarinnar, að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, taki við embætti forsætisráðherra í starfsstjórn sem verði við völd fram að þingkosningunum. 

Ingibjörg Sólrún sagði að verkefnin væru mörg og brýn. Ef hún á að njóta trausts þá þarf að vera góð forysta fyrir henni. Hún segist ekki telja rétt að hún leiði ríkisstjórn miðað við sínar persónulegar aðstæður.

„Samfylkingin gerir kröfur til þess að það verði öflug forysta fyrir ríkisstjórninni. Trúverðug og öflug forysta. Við munum þurfum bara að finna réttu persónuna til að veita hana," sagði Ingibjörg Sólrún við fréttamenn. 

Ingibjörg Sólrún mun eiga fund með Geir H. Haarde, forsætisráðherra þegar þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins lýkur og vildi ekki upplýsa fréttamenn um hver niðurstaðan var á fundi þingflokks Samfylkingarinnar.

Hún segist gera ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í dagslok um hver framtíð stjórnarsamstarfsins verður.  Ástandið geti ekki verið áfram eins og það er nú. Það sem skipti máli er að ríkisstjórnin njóti trausts meðal fólks. Hún sagði að það hafi verið breið samstaða meðal þingflokksmanna á fundinum í morgun. „Það er mjög mikilvægt að okkar mati að hér sé kröftug ríkisstjórn með öfluga forystu. Ég hef allt mitt fólk með í þessu."

Ingibjörg Sólrún segist gera ráð fyrir því að það eigi bæði við um hana og forsætisráðherra að þeim veiti sennilega ekki af að draga aðeins úr næsta mánuðinn. Því þurfi að finna traustan og trúverðugan einstakling til þess að leiða stjórnina. Sagðist Ingibjörg Sólrún telja að Samfylkingin sé vel í stakk búin til þess að leiða ríkisstjórnina án þess þó að hún sjálf verði forsætisráðherra. Hún útilokaði ekki að leitað verði út fyrir stjórnmálaflokkana til þess. 

Hún segist ekki geta gefið neitt upp um hvort ríkisstjórnin lifi áfram, það sé í höndum forsætisráðherra.  Aðalatriðið væri að þetta sé traust og trúverðug forysta.

Þegar Ingibjörg Sólrún var spurð hvort  til greina kæmi, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, verði forsætisráðherra svaraði hún, að það væri ekki sjálfgefið að keflið flyttist með þeim hætti.

Forustumenn stjórnarandstöðunnar hafa fylgst með málum í þinnghúsinu í dag.
Forustumenn stjórnarandstöðunnar hafa fylgst með málum í þinnghúsinu í dag. mbl.is/Golli
mbl.is