Hittast kl. 14 í dag

Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yfirgefa Bessastaði
Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yfirgefa Bessastaði mbl.is/Rax

Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir halda nú til fundar við sína eigin flokksmenn en gera ráð fyrir að hittast á fundi kl. 14 í dag til að ræða mögulega myndun minnihlutastjórnar.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru allar líkur á að Jóhanna Sigurðardóttir setjist í stól forsætisráðherra og að Steingrímur J. Sigfússon verði fjármálaráðherra. Ögmundur Jónasson yrði hugsanlega heilbrigðisráðherra. Ekkert er þó formlega ákveðið í þessum efnum.

Enn er óljóst hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætlar sér að sitja í ríkisstjórninni eða hvort hún hverfur frá vegna veikinda. Sitji hún áfram má ætla að hún haldi áfram sem utanríkisráðherra. Össur Skarphéðinsson verður að líkindum áfram iðnaðarráðherra og nafn Katrínar Jakobsdóttur hefur verið nefnt í tengslum við menntamálaráðuneytið. Uppi eru hugmyndir um að fækka ráðherrum en ekkert liggur fyrir hvað yrði í þeim efnum.

Framsóknarflokkurinn myndi verja ríkisstjórnina falli og að líkindum fá í sinn hlut embætti forseta Alþingis. Þá er mögulegt að Frjálslyndi flokkurinn hafi líka aðkomu að samstarfinu og hefur nafn Guðjóns Arnars Kristjánssonar verið orðað við formennsku í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

mbl.is